Artikolo ehf., fyrirtæki í eigu Kolfinnu Vonar Arnardóttur, eiginkonu Björns Inga Hrafnssonar, og Arons Einars Gunnarssonar, landsliðsfyrirliða í knattspyrnu, var að sögn langt komið með að kaupa helmingshlut í fatavörumerkinu Jör. Þetta sagði Kolfinna Von þann 9. júní síðastliðinn í samtali við Vísi. Ljóst er að ekkert varð af þeim kaupum.

„Síðastliðið vor hófust viðræður félaganna um stóra fjárfestingu í sóknarverkefni félagsins á erlendan markað. Settar voru upp forsendur milli Artikolo og Jör fyrir mánuðina sem fylgdu. En þar sem ekki var staðið við þau atriði varð ekkert af þeirri fjárfestingu, þrátt fyrir fréttir um annað. Félagið er því nú alfarið í eigu stofnanda Jör,“ segir Guðmundur.
Fyrirtækið sé nú í endurskipulagningu, komið á ákveðinn byrjunarreit og stefnir á bjartari tíma framundan.

Björn Ingi Hrafnsson segir það ekki rétt að til hafi staðið að kaupa hlut í fyrirtækinu, það hafi aldrei gerst.
„Artikolo hefur aldrei fest kaup á hlut í Jör. Fyrirtækið Artikolo er í eigu konu minnar. Það fyrirtæki hefur hins vegar lánað Jör fjármagn og ef gengur vel er hægt í fyllingu tímans að breyta því í hlutafé,“ segir Björn Ingi Hrafnsson.