Innlent

Gunnar Bragi ítrekar stuðning við sjálfstætt ríki palestínu

Heimir Már Pétursson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, flutti ávarp á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, flutti ávarp á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. mynd/ap
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fordæmdi notkun efnavopna í Sýrlandi á dögunum í ávarpi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag og fagnaði jafnframt samkomulagi um að Sýrlendingar afhentu öll sín efnavopn. Megin skylda allra stjórnvalda væri að vernda þegna sína en í því hefðu stjórnvöld í Sýrlandi brugðist.

Gunnar Bragi ítrekaði stuðning Íslands við sjálfstætt ríki Palestínumanna og rétt Ísraelsríkis til að búa við öryggi og frið. En Ísraelsmenn yrðu tafarlaust að hætta landnámi sínu á herteknu svæðunum til að möguleikar á friðarsamkomulagi í Miðausturlöndum spilltist ekki enn frekar.

Þá minnti utanríkisráðherra á að 20 ár væru liðin frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking í Kína og hvatti allar þjóðir heims til að virða réttindi kvenna og tryggja þeim jafna stöðu á við karlmenn.

Utanríkisráðherra sagðiað virðing fyrir alþjóðalögum væri grundvallaratriði í samskiptum ríkja. Deilur ætti að leysa með friðsömum hætti í gegnum samninga og í samræmi við alþjóðalög. Íslendingar hefðu t.d. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna í hávegum. Aðstoða ætti þróunarríki til að vinna í anda sáttmálans og við uppbyggingu og vernd fiskistofna.

Ávarp utanríkisráðherra má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×