Sport

Gunnar Nelson verður stjarnan í Stokkhólmi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson er ósigraður í UFC.
Gunnar Nelson er ósigraður í UFC. vísir/getty
Gunnar Nelson berst í aðalbardagakvöldsins á Fight Night-bardagakvöldi UFC-bardagasambandsins í Stokkhólmi þann 4. október, en þetta getur Vísir staðfest.

Gunnar samþykkti boð UFC í dag um að fara fyrir bardagakvöldinu, en þar mætir hann Bandaríkjamanninum RickStory í veltivigtarbardaga.

Síðast barðist Gunnar í Dyflinni á Írlandi sem var annar af tveimur aðalbardögum kvöldsins, en nú verður hann stjarnan. Því fylgir mun meiri athygli og auknar tekjur.

Rick Story, andstæðingur Gunnars í Svíþjóð, verður þrítugur síðar mánuðinum, en hann er í 15. sæti veltivigtarinnar á styrkleikalista UFC, þremur sætum fyrir neðan Gunnar.

Hann hefur barist 25 sinnum á ferlinum og unnið 17 sinnum, en árangur hans í UFC eru níu sigrar og sjö töp. Hann barðist síðast við LeonardoMafra á Fight Night-kvöldi í júlí og vann með uppgjafartaki.

Story er aðeins annar af tveimur mönnum sem hafa unnið JohnnyHendricks, núverandi meistara í veltivigt UFC, en hinn var George St. Pierre, líklega sá besti frá upphafi.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir Gunnar Nelson sem heldur áfram að klífa metorðastigann í UFC.

Viðtal við Gunnar birtist á Vísi innan skamms.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×