Innlent

Gylfi: Óásættanlegt að hluti Íslendinga fái lán á vildarkjörum

Viðskiptaráðherra segir óásættanlegt að hluti Íslendinga fái lán á vildarkjörum á kostnað samborgara sinna, eftir að Hæstiréttur dæmdi gengistryggingar lána ólöglegar. Forsætisráðherra segir ekki standa til að þing eða ríkisstjórn hlutist til um niðurstöðuna fyrr en dómstólar hafi skorið úr um ágreiningsefni.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra flutti munnlega skýrslu sína um áhrif niðurstöðu hæstaréttar um gengistryggð lán á þingfundi klukkan hálf tvö í dag. Hann sagði dóminn bæði leysa og hugsanlega búa til vandamál. Fjármálakerfið hafi eftir endurreisn þess verið undir það búið að þessi lán innheimtust ekki að fullu, en það hafi ekki verið undir það búið að lágir erlendir vextir lánanna yrðu látnir gilda í ofanálag við að gengistrygging þeirra yrði afnumin.

„Högg af þeirri stærðargráðu sem að gæti orðið ef að allt færi á versta veg frá sjónarhjóli lánveitenda mun óhjákvæmilega lenda að verulegu leyti á öðrum þar á meðal ríkissjóði og þar með skattgreiðendum og notendum opinberrar þjónustu," segir Gylfi.

Gylfi segir óásættanlegt að tekið verði á viðfangsefninu með þeim hætti að hluti Íslendinga fái vildarkjör á lánum sínum og kostnaðurinn af því falli á samborgara þeirra, en sagðist þó hlíta úrskurði Hæstaréttar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir íhlutun yfirvalda af ágreiningi í kjölfar dómsins ekki standa til og að mikilvægt sé að úr málinu sé skorið fyrir dómstólum.

„Niðurstaða okkar hefur verið sú að ekki sé tilefni til beinna afskipta ríkisstjórnar eða löggjafarvaldsins og að fyrirliggjandi lög taki á þeim álitamálum sem uppi eru," segir Jóhanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×