Innlent

Gylfi Magnússon: Ísland getur vel staðið undir Icesave

Hafsteinn Gunnar Hauksosn skrifar
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði enga munu vilja lána eða eiga viðskipti við ríki sem ekki gerir upp sínar skuldir í óundirbúnum fyrirspurnartíma ráðherra á Alþingi í dag. Hann sagði íslenska ríkið jafnframt vel geta staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave samninganna.

Þessi ummæli komu í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknar, sakaði ráðherrann um hræðsluáróður vegna yfirlýsinga hans um að Ísland væri hið nýja Enron og yrði Kúba norðursins ef Icesave samningurinn yrði ekki samþykktur. Hann spurði hvað Gylfi hefði fyrir sér í því og hvernig hann leyfði sér að viðhafa slíkan hræðsluáróður.

Gylfi sagði þá margt svipað með bankahruninu og falli Enron. Það væri einfaldlega hreinskilið gagnvart umheiminum að viðurkenna það og jyki trúverðugleika landsins út á við. Kúbu-samlíkingin væri sprottin af sama meiði.

Þá aftók Gylfi að Ísland gæti ekki staðið við þær skuldbindingar sem kveðið er á um Icesave samningnum, hann hefði reiknað það út sjálfur.

„Útflutningstekjur eru ríflega 5 milljarðar evra á ári og hafa aukist um átta prósent að meðaltali á síðustu 15 árum. Þetta er það sem þjóðarbúið hefur til ráðstöfunar," sagði Gylfi. Hann sagði þessar miklu útflutningstekjur standa undir því sem upp á vantar eftir að eignir Landsbankans hafa verið teknar upp í Icesave skuldina, enda hefði kreppan ekki mikil áhrif á útflutning þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×