Viðskipti innlent

Hægt verði að standa við ákvæði kjarasamninga

Vilhjálmur Egilsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjámur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins reiknar með að hægt verði að standa við ákvæði kjarasamninga um almennar launahækkanir hinn 1. febrúar næst komandi. Hann segir forsendur kjarasamninga hins vegar hafa veikst af ýmsum ástæðum. Í hádegisfréttum okkar sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að ekki væru miklar forsendur til launahækkana á næsta ári umfram kjarasamninga.

„Við höfum verið að vinna út frá því hér að samningarnir myndu halda og 3,25% hækkun myndi koma til framkvæmda 1. febrúar og breytingar á töxtum og launatöflum líka," segir Vilhjálmur í samtali við Bylgjuna.

Samkvæmt forsendum kjarasamninga sem gerðir voru vorið 2011 á að endurskoða forsendur þeirra áður en til síðustu launahækkana samkvæmt honum koma til framkvæmda í febrúar.

Vilhjálmur segir að þá hafi verið gert ráð fyrir því að fjárfestingar yrðu meiri og efnahagslífið almennt á betri leið.

Vilhjálmur segir atvinnulífið hafa reiknað með lægri greiðslum í atvinnuleysistryggingarsjóð, vegna minna atvinnuleysis á næsta ári.

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara ekki eftir því sem kemur fram í hennar yfirlýsingu og var samið um á sínum tíma. Að því leytinu til má segja að forsendur kjarasamninganna hafi veikst," segir hann.

Hann segir fyrirtækin standa misjafnlega að vígi hvað varðar launahækkanir, en útflutningsgreinar standi þar einna best.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×