Viðskipti innlent

Hækka gjaldskrána vegna framkvæmda

Kolbeinn skrifar
Aðstoðarforstjóri Landsnets segir að fyrirhuguð hækkun á flutningsgjaldskrá félagsins, sem tekur gildi um áramótin, sé í fullu samræmi við lög. Hún miðist við að arðsemi félagsins verði innan leyfðra marka og leiði til þess að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt, í samræmi við þarfir samfélagsins. Ákvörðunin verði fyrst kærð að lokinni umfjöllun Orkustofnunar sem hefur málið til umfjöllunar.

Samál, Samtök álframleiðenda, hafa kært hækkunina til úrskurðarnefndar um raforkumál. Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri sagði hana vera brot á því ákvæði raforkulaga að tekjur verði að vera í samræmi við þann kostnað sem felst í þjónustunni, að teknu tilliti til arðsemi.

„Samkvæmt breytingunum á gjaldskránni er hækkunin til dreifiveitnanna níu prósent en þegar tekið hefur verið tillit til hlutfalls flutnings í rafmagnsverði til almennings leiðir þetta til um eins prósents hækkunar á rafmagnsverði til neytenda. Gjaldskrá Landsnets til dreifiveitna hefur verið óbreytt frá 2009 og þrátt fyrir umrædda hækkun gjaldskrárinnar er hún sjö prósentum undir hækkun almennrar verðlagsþróunar frá þeim tíma," segir Guðmundur.

Hvað stórnotendur varðar segir hann að gjaldskrá til þeirra hafi verið lækkuð í tvígang; 1. janúar 2010 um 7 prósent og 1. júní 2011 um 5 prósent. Það hafi verið gert vegna áhrifa frá gengishruni krónunnar. Þær lækkanir hafi verið afar óheppilegar og ekki endurspeglað stöðu fyrirtækisins á þeim tíma. Meðalflutningskostnaður stórnotenda sem var 5,4 USD/MWh í febrúar 2008 verður 5,7 USD/MWh frá 1. janúar 2013 gangi gjaldskrárhækkunin eftir.

„Lagt er til að flutningsgjaldskrá til stórnotenda hækki um 20 prósent frá gjaldskránni eins og hún var eftir framangreindar lækkanir. Hækkun á gjaldskránni í Bandaríkjadölum frá 2008 er því tæpt prósentustig sem er um 4 prósentustigum undir þróun verðlags í Bandaríkjunum á sama tíma."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×