Innlent

Hækkun um fjóra milljarða verði gengið að kröfum lækna

Sveinn Arnarsson skrifar
Vísir / Getty
Ef gengið yrði að kröfum Læknafélags Íslands myndi það þýða rúma fjóra milljarða í aukin útgjöld ríkisins. Heildarlaun lækna á Íslandi eru um 14 milljarðar króna.

Heildarútgjöld hins opinbera í laun starfsmanna ríkisins eru um 140 milljarðar árlega. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru laun lækna um tíu prósent af heildarlaunum hins opinbera, eða um fjórtán milljarðar króna. Kröfur lækna, um rúmlega 30 prósenta hækkun launa, mundu því skila þeim rúmlega fjórum milljörðum á ári.

Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélagsins, segir grunnlaun lækna vera of lág. Til þess að læknar vilji starfa á Íslandi þurfi að hækka grunnlaunin. Nú sé svo komið að læknar vinni myrkranna á milli til þess að ná upp launum sínum. Það álag sé ekki heillandi kostur fyrir unglækna í dag.

Dagvinnulaun lækna eru ekki há. Grunnlaun lækna sem eru nýútskrifaðir úr háskólanum eru um 340 þúsund. Grunnlaun sérfræðings eru um 600 þúsund krónur. Þegar heildarlaun lækna eru svo skoðuð kemur í ljós að læknar vinna afar mikið til þess að laun þeirra nái því sem eðlilegt getur talist. Heildarlaun lækna ráðast af því hversu margar bakvaktir og yfirvinnuvaktir læknar taka að sér.

Sigurveig segir það skipta mestu máli í þessum samningum að ná því markmiði að gera umhverfið að fýsilegum valmöguleika fyrir unga lækna. Það er okkar keppikefli í þessum samningum að minnka álag á lækna þannig að læknar vilji búa og starfa á Íslandi Við þurfum samkeppnishæfari laun svo læknum fækki ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×