Viðskipti innlent

Hæsti vöxtur kortaveltu frá 2011

Samúel Karl Ólason skrifar
vísir/Getty
„Dágóður vöxtur virðist hafa verið í einkaneyslu á síðasta fjórðungi nýliðins árs, ef marka má kortaveltutölur,“ segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Þá hefur vöxtur kortaveltu ekki verið jafn hraður og á nýliðnum ársfjórðungi síðan á fjórða ársfjórðungi 2011. Vöxturinn breytir heildarmyndinni fyrir 2013 töluvert.

Á 4. ársfjórðungi í heild óx kortavelta að raungildi um 4,2% frá fyrra ári. Þar af var vöxtur erlendu kortaveltunnar 13,4% en innlend kortavelta óx um 3,2%. Eins og áður segir er þetta hraðasti raunvöxtur kortaveltu síðan á 4. ársfjórðungi  2011, en þá var hann 5,7%.

 

Raunvöxtur kortaveltu í desember nam 7,5 prósentum á milli ára og innanlands jókst veltan um 6,7 prósent að raungildi. Kortavelta erlendis óx hinsvegar um 16,6 prósent. Mikil velta í jólamánuðinum er árviss, en engin einhlýt skýring er á þessum fjörkipp. „Hugsanlegt er að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem kynntar voru í nóvemberlok, hafi hleypt auknu lífi í innkaup landsmanna fyrir þessi jól.“

Á tímabilinu drógust bílakaup talsvert saman, en þau voru lífleg á síðasta ársfjórðungi 2012 og áttu stóran þátt í að skýra að vöxtur einkaneyslunnar þá var umfram vöxt kortaveltu. „Að teknu tilliti til þessa gerum við ráð fyrir að einkaneysla hafi vaxið um 2,5% – 3,0% að raunvirði á 4. ársfjórðungi 2013 frá sama tíma árið áður,“ segir í Morgunkorninu.

Þessar nýju kortatölur styrkja Seðlabankann væntanlega í þeirri skoðun að hagkerfið sé að taka við sér. Í nóvember spáði bankinn 1,9 prósent vexti einkaneyslu á árinu 2013 og eru kortatölurnar í samræmi við það.

„Það kemur svo í ljós með kortaveltutölum næstu mánaða hvort innstæða var fyrir aukinni neyslugleði landans í jólamánuðinum, eða hvort heimilin þurfa að herða beltin fastar að nýju á þorranum og góunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×