Innlent

Hætta með auðkennislykilinn

Auðkennislykillinn heyrir nú brátt sögunni til fyrir 100 þúsund Íslendinga því Landsbankinn hefur innleitt nýtt öryggiskerfi fyrir netbanka sem gerir auðkennislykilinn óþarfan og er fyrsti bankinn á Norðurlöndunum til að gera slíkt.

Frá og með næsta þriðjudegi tekur Landsbankinn upp næstu kynslóð í netöryggi í netbanka einstaklinga frá fyrirtækinu RSA. 100 þúsund viðskiptavinir Landsbankans munu því ekki þurfa auðkennislykil til að skrá sig inn í einkabankann, aðeins notandanafnið sitt og lykilorð.

Landsbankinn er fyrsti bankinn á Norðurlöndum sem innleiðir þessa lausn en 6.000 bankar með 350 milljónir notenda notast við samsvarandi kerfi á heimsvísu.

„Frá sjónarhóli notenda þýðir þetta að þeir geta stundað sín bankaviðskipti þegar þeim hentar með hvaða aðferð sem þeim hentar. En frá sjónarhorni öryggismála er enginn munur á þessu," segir Mark Crichton, viðskiptastjóri hjá RSA.

Kerfið ber saman aðgerðir og aðstæður notandans við sömu stærðir úr fortíð.

Er eini munurinn að maður notar hvorki auðkennislykil né SMS-skilaboð?

„Í fyrstu atrennu, þegar maður skráir sig inn með venjulegum hætti, er ekki notast við neina viðbótarstaðfestingu ekki nema í því tilviki að um áhættu gæti verið að ræða. Kannski væri um óvenjulega aðgerð að ræða. Í því tilviki hefur bankinn aðra möguleika á auðkenningu, t.d. getur bankinn hringt í þig í þeim tilgangi að sanna á þér deili."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×