Lífið

Hætti á Facebook og byrjaði með kærustunni

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Hilmar æfir nú leikritið Ferjan eftir Kristínu Marju Baldursdóttur sem frumsýnt verður 21. mars í Borgarleikhúsinu.
Hilmar æfir nú leikritið Ferjan eftir Kristínu Marju Baldursdóttur sem frumsýnt verður 21. mars í Borgarleikhúsinu. Vísir/Vilhelm
„Þetta kom til vegna þess að ég og kærastan mín vorum mjög upptekin í leiklistarnámi og sinntum því stóran hluta sólarhringsins. Svo komum við heim eftir skóla, fórum bæði á Facebook og vorum á Facebook þangað til við fórum að sofa. Allt í einu leit ég upp úr tölvunni og áttaði mig á aðstæðum. Þá lauk mínu þriggja mánaða sambandi við Facebook,“ segir leikarinn Hilmar Guðjónsson. Hann og kærasta hans, leikkonan Lára Jóhanna Jónsdóttir, eru ekki á Facebook þar sem þau völdu frekar að rækta sambandið en að fylgjast með stöðuuppfærslum.

„Ég hætti á Facebook og byrjaði með kærustunni minni aftur. Ég sakna Facebook ekki. Mér fannst þetta geðveikt gaman um tíma, sérstaklega að njósna um gamla skólafélaga,“ segir Hilmar á léttu nótunum en nú eru liðin fjögur ár síðan hann rauf tengslin við samfélagsmiðilinn. Hann finnur stundum fyrir því að hann sé einn fárra Íslendinga sem nota ekki Facebook.

„Ég missi oft af sjálfstæðum leiksýningum, partíum og einstaka fundum. Ég fæ líka oft tölvupósta sem byrja á setningunni: „Fyrst þú ert ekki á Facebook…“ Fólk verður oft orðlaust þegar ég segi því að ég sé ekki á Facebook því þetta er svo stór partur af svo mörgum.“

Hilmar prófaði líka Twitter um tíma en hætti því eftir skamma stund. Hann er búinn að nota Instagram í rúmt ár núna.

„Ég hef ekki verið jafn lengi á samfélagsmiðli og Instagram. Sá miðill er ekki eins tímafrekur og Facebook og Twitter. Annars vil ég vera eins einfaldur og mögulegt er.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×