Innlent

Hafa ekki fengið svör um fangaflug

Smáþota sem talin er hafa verið notuð til fangaflugs bandarísku leyniþjónustunnar var mynduð á Reykjavíkurflugvelli árið 2005, en þá var fjallað um málið í fréttum.Fréttablaðið/E.Ól.
Smáþota sem talin er hafa verið notuð til fangaflugs bandarísku leyniþjónustunnar var mynduð á Reykjavíkurflugvelli árið 2005, en þá var fjallað um málið í fréttum.Fréttablaðið/E.Ól.
Ísland er meðal Evrópulanda sem ekki hefur svarað fyrirspurn erlendra mannréttindasamtaka um fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Í áfangaskýrslunni „Rendition on Record“, sem út kom í byrjun vikunnar og samtökin Reprieve og Access Info Europe standa að, kemur fram að af 28 Evrópulöndum sem beðin voru um upplýsingar um fangaflug Bandaríkjanna hafa einungis sjö svarað, Bandaríkin, Þýskaland, Írland, Danmörk, Litháen, Noregur og Finnland. Nærri helmingurinn, eða 46 prósent, hefur engu svarað.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum virðast hins vegar mun viljugri til að veita upplýsingar. Fram kemur í skýrslunni að Bandaríska flugmálastjórnin FAA hafi látið af hendi 27.128 færslur vegna flugs 44 flugvéla árin 2002 til 2006.

Fangaflug CIA er hluti af „stríði Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum“ þar sem grunaðir hryðjuverkamenn voru fluttir til landa þar sem þeir kunna að hafa verið pyntaðir.

Rannsókn Reprieve og Access info Europe hefur nú staðið í hálft ár og segja samtökin að upplýsingabeiðni þeirra sé á reglubundinn hátt hunsuð í Evrópulöndum, eða látið sem hún sé léttvæg og það kalli á stöðuga eftirfylgni og þrautagöngu milli stofnana.

Í umfjöllun á vef Reprieve er haft eftir Crofton Black, einum höfunda skýrslunnar, að sláandi dæmi um „áhyggjulausa velþóknun“ Evrópu sé að svör fáist greiðlega í Bandaríkjunum á meðan evrópska flugumferðarstjórnin Eurocontrol láti ekki svo mikið sem eina skráningu af hendi. „Eins er óásættanlegt að lönd á borð við Austurríki, Frakkland, Ítalíu, Lettland, Rúmeníu og Spán skuli hreinlega hunsa beiðnir um upplýsingar sem varða mikilvæg mannréttindi,“ segir hann. Þótt Ísland hafi ekki enn svarað er landið þó ekki sagt hunsa fyrirspurnina, heldur sé beðið „svars sem hefði átt að vera komið fram“.

Friðþór Eydal, talsmaður Isavia ohf. (áður Flugstoðir), segir töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn erlendu samtakanna skýrast að nokkru af því að fyrirspurnin hafi upphaflega borist á rangan stað. Henni hafi verið beint til Flugmálastjórnar, sem aftur hafi komið henni áleiðis til Isavia. Þar liggi umbeðnar upplýsingar fyrir en þó sé ekki hægt að svara fyrirspurninni án heimildar stjórnvalda. „Við sendum þetta á innanríkisráðuneytið með ósk um fyrirmæli um hvernig taka ætti á málinu,“ segir Friðþór. Í gær lágu ekki fyrir upplýsingar um stöðu fyrirspurnarinnar hjá innanríkisráðuneytinu.

olikr@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×