Innlent

Hafði í hótunum við sýslumann - ætlaði að snúa aftur með byssu

„Þetta var kært til lögreglu," segir Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík, en maður á miðjum aldri kom á skrifstofu sýslumanns um klukkan hálf tvö í dag og hafði í hótunum við sýslumanninn. Meðal annars hótaði maðurinn að snúa aftur á skrifstofuna vopnaður byssu.

Þórólfur segir að maðurinn hafi skuldað opinber gjöld sem sýslumaðurinn innheimtir almennt ekki. Að sögn Þórólfs hafði hann aldrei séð manninn áður, en hann yfirgaf sýslumannsskrifstofuna af sjálfsdáðum. Það er búið að finna út deili á manninum og lögreglan rannsakar málið.

Spurður hvort embættinu hefði verið hótað með sambærilegum hætti áður, svararði Þórólfur því til að það hefði vissulega komið fyrir að menn hefðu hækkað róminn, en starfsfólki hefði ekki verið hótað.

Aðspurður hvort gæsla verði aukin um sýslumannsembættið segist Þórólfur ekki vilja tjá sig um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×