Viðskipti innlent

Hagstofan spáir 4% verðbólgu í lok ársins

Hagstofan spáir því að verðbólga verði 6,0% að meðaltali í ár en komin í um 4,0% í lok ársins. Spáð er áframhaldandi hjöðnun verðbólgu árið 2011 og að hún verði á verðbólgumarkmiði (2,5% innsk. blm.) að meðaltali árið 2012.

Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar sem birt var í morgun. Þar segir að árið 2009 var verðbólga 12% að meðaltali en lækkaði hratt, úr 18,6% í janúar í 7,5% í desember. Verðbólgan á fyrstu mánuðum þessa árs var nokkuð hærri en væntingar gáfu til kynna.

Í maí lækkaði tólf mánaða verðbólgan aftur og mældist 7,5%. Á þessu tímabili hafa kostnaðarhækkanir vegna falls krónunnar og verðlækkun húsnæðis haft mest áhrif. Gengi krónunnar féll um 25% milli 2008 og 2009.

Síðastliðin misseri hefur veiking krónunnar einkum komið fram í hækkun á verði innfluttra vara en frá janúar 2009 til maí 2010 hækkaði verð á innfluttum vörum um tæplega 20%, en þar hafði hækkun á heimsmarkaðsverði olíu einnig áhrif.

Lækkun húsnæðis hefur haldið aftur af verðbólgu sem sést á því að árið 2009 var verðbólga án húsnæðis 16,1% og í maí 2010 var samsvarandi ársbreyting 12,0%. Lækkunin endurspeglar verulegan samdrátt í viðskiptum á fasteignamarkaði og ljóst að húsnæðisverð hefur lækkað umtalsvert, hvort sem litið er til rauneða nafnvirðis.

Gert er ráð fyrir á að verðbólga haldi áfram að minnka á þessu ári. Mikill slaki er í hagkerfinu og launaþrýstingur hefur verið með minnsta móti, þó ekki sé loku fyrir það skotið að laun hækki í útflutningsgreinum. Gengi krónunnar hefur styrkst nokkuð það sem af er ári og eru því horfur á að þáttur innfluttrar vöru í verðbólgu lækki þegar líður á árið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×