Skoðun

Hagur heimilanna

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Álagning ríkisskattstjóra á einstaklinga hefur farið fram og mun birtast í dag og næstu daga. Áhugavert er að rýna í þær tölur sem hún byggist á. Ein þeirra áhugaverðustu er vaxtakostnaður heimilanna vegna íbúðarkaupa árið 2011 og samanburður við árið 2010. Vaxtakostnaðurinn hefur lækkað um 10,3% á milli áranna og íbúðareigendur fá endurgreiddan um 27% af vaxtakostnaði með vaxtabótum. Úthlutun vaxtabóta hefur lækkað á milli ára sem helgast af bættri stöðu heimilanna. Þannig dregur úr þörf fyrir stuðning vegna þess að hagur heimilanna hefur batnað bæði með lægri vaxtakostnaði og auk þess hafa tekjur heimilanna aukist en þetta eru þeir tveir meginþættir sem hafa áhrif á upphæð vaxtabóta.

Meginþemað í aðgerðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er að auka jöfnuð í samfélaginu. Þannig fá þeir sem lægstar hafa tekjurnar hærri vaxtabætur en þeir sem hafa meira á milli handanna. Þó er það svo að almennar vaxtabætur til hjóna skerðast ekki að fullu fyrr en árstekjur þeirra hafa farið yfir 14 milljónir króna. Sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem nemur alls tæpum 6 milljörðum króna er ekki tekjutengd eins og almennu bæturnar en útgreiðsla þeirra nemur nú 8,8 milljörðum króna. Vaxtabætur á árinu 2012 nema því samtals um 15 milljörðum króna.

Margir þættir hafa þróast heimilunum í hag. Vaxtakostnaður hefur lækkað umtalsvert eins og áður sagði og eftirstöðvar lána vegna íbúðarkaupa hafa dregist saman um 3,1% milli ára. Þetta á sér stað þrátt fyrir það að vísitala neysluverðs, sem flest lán heimilanna eru tengd við, hafi hækkað um 5,3%. Þannig sést að aðgerðir lánastofnana hafa haft umtalsverð áhrif þótt árangur af margvíslegum aðgerðum vegna skuldavanda heimilanna hafi ekki verið kominn að fullu fram í árslok 2011. Verðmæti fasteigna óx að meðaltali um 10% á milli áranna 2010 og 2011 og hrein eign heimilanna um 17%. Síðast en ekki síst hafa tekjur þeirra heimila sem fá vaxtabætur af íbúðarlánum vaxið að meðaltali um 8,6% á sama tímabili.

Ljóst er að vaxtabætur hafa bætt stöðu heimila umtalsvert og haft verulega þýðingu við að aðstoða fjölskyldur í landinu við að takast á við afleiðingar hrunsins. Eftir úthlutun vaxtabóta er rúmur helmingur fjölskyldna að greiða innan við 8,5% af ráðstöfunartekjum sínum í vexti af húsnæðislánum og 2/3 innan við 10,5%.

Heildarvaxtakostnaðar heimilanna sem hlutfall af heildartekjum og hlutur vaxtabóta í honum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá að þrátt fyrir það að vaxtakostnaður heimilanna hafi næstum tvöfaldast sem hlutfall af tekjum þeirra milli áranna 2007 og 2010 hafa vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla lækkað nettókostnað heimilanna umtalsvert, þannig að hann varð aldrei hærri en 4,9% af tekjunum og hefur lækkað síðan. Hér er um ásættanlegan árangur að ræða í erfiðu árferði ríkisfjármála og ljóst af myndinni hér fyrir ofan að sá árangur hefur náðst sem að var stefnt. Um fjórðungur allra heimila sem greiddu vexti af húsnæðislánum í fyrra fær meira en helming vaxtakostnaðarins í vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Tæplega 18.000 fjölskyldur fá greiddar vaxtabætur sem nema yfir 30.000 krónum á mánuði og yfir 6.000 fjölskyldur fá útborgaðar bætur sem jafngilda yfir 50.000 krónum á mánuði. Þannig hefur verið unnið vel úr áfallinu með því að beina aðgerðum að þeim sem mest hafa þurft á þeim að halda.




Skoðun

Sjá meira


×