Skoðun

Hamingja handa þér!

Hrefna Guðmundsdóttir skrifar
Segja má að Íslendingar hafi skyndilega orðið ein hamingjusamasta þjóð heims kringum 1995 þegar rannsóknir birtust þess efnis. Viðbrögðin hér voru á mjög skeptískum nótum, sem von var enda notum við mikið af þunglyndislyfjum. Á Alþjóðlega hamingjudeginum, 20. mars næstkomandi, ætlar Dr. Ruut Veenhoven, frumkvöðull í hamingjurannsóknum, að koma til landsins og segja okkur hvers vegna við mælumst svona há. Hann ætlar að fræða okkur um hvað einkennir þau samfélög þar sem flestir mælast hamingjusamir en hann hefur í áratugi verið að safna gögnum um hamingju hinna ólíkustu samfélaga og heldur utan um tölfræðibankann „The World database of happiness“ sem er staðsettur í Hollandi.

Veenhoven er félagssálfræðingur og heldur því fram að umhverfið skipti meira máli en við höldum um það hvort við höfum aðstæður eða tækifæri til að geta verið hamingjusöm. Hann heldur því jafnvel fram að hægt sé að skýra 75% af hamingju okkar eða óhamingju eftir samfélagsgerðinni sem við tilheyrum.

Rannsóknir hans hafa m.a. sýnt að hamingjusamir lifa lengur, eru heilsubetri, virkari í einkalífinu og tilbúnari til þátttöku í samfélagsverkefnum. Að þeir eru í betri hjónaböndum og eru síður frá vinnu vegna veikinda. Dr. Ruut ritstýrir tímaritinu „The Journal of Happiness Studies“ sem hann stofnaði og er aðgengilegt á Landsbókasafni Íslands og í dag er heil rannsóknardeild í Erasmus University of Rotterdam að rannsaka hamingjuna og byggir á verkum Ruuts Veenhoven.

Hann vill beina því til stjórnvalda, stjórnenda og til skólayfirvalda að það sé á þeirra ábyrgð að skapa aðstæður þar sem einstaklingar hafa forsendur til að geta orðið hamingjusamir. Hann heldur því fram að fjárhagslegur ávinningur sé fyrir fyrirtæki og samfélög að hamingja sé sem víðtækust.

Rannsóknir hans hafa verið innblástur fyrir marga leiðtoga heimsins og Sameinuðu þjóðirnar eru að hvetja leiðtoga til að styðjast ekki bara við hagvöxt heldur einnig hamingju- og velferðarmælingar til að meta framþróun.

Annað sem skýrir hamingjuna skv. Veenhoven eru erfðir, lærð hegðun, eigin viðhorf og ákvarðanir, heppni og félagsleg staða og í þessari röð.

Við ráðum vissulega engu varðandi erfðamengið, getum stundum haft áhrif á félagslega stöðu og við getum tamið okkur að horfa jákvætt fram á veginn. Ótti, streita og einmanaleiki hafa neikvæð áhrif á heilsu og hamingju. Það sem helst fer saman við það að upplifa sig hamingjusaman skv. rannsóknum er það að vera ekki mikið einn, vera í uppbyggilegum samskiptum, temja sér þakklæti og velvild til samferðamanna, hafa skuldbindingu, tilgang og ástríðu fyrir því sem maður gerir og temja sér heilbrigða lífshætti.

Taktu frá Alþjóðlega hamingjudaginn 20. mars. Málþing verður þá haldið Dr. Ruut Veenhoven til heiðurs í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 14-16. Þar munu einnig verða kynntar niðurstöður íslenskra fræðimanna á mælingum á hamingjunni og er aðgangur ókeypis.

Höfundur er stofnandi félags um jákvæða sálfræði og er í undirbúningshópi fyrir Alþjóðlega hamingjudaginn.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×