Innlent

Harður árekstur vegna starfsmanns hestaleigu

Valur Grettisson skrifar
Slys á Suðurlandsveginum. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Slys á Suðurlandsveginum. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.

Hörð aftanákeyrsla átti sér stað fyrr í dag á Suðurlandsveginum nærri Hveragerði. Ástæðan var sú að starfsmaður hestaleigu hugðist stöðva umferð á veginum til þess að hleypa hestamönnum yfir.

Ökumaður bifreiðar hægði á sér vegna bendinga starfsmannsins en ökumaðurinn sem kom á eftir áttaði sig ekki á því að bíllinn á undan hafði hægt svo mikið á sér. Keyrði hann því harkalega aftan á bílinn. Þeir eru báðir óökufærir.

Enginn slasaðist alvarlega. Einn farþegi leitaði þó á spítala vegna eymsla í brjóstkassa.

Lögreglan á Selfossi segir málið til rannsóknar. Engum er leyfilegt að stjórna umferð nema lögreglu og starfsmönnum vegagerðarinnar sem standa í vegaframkvæmdum.

Málinu hefur því verið vísað til lögfræðisviðs lögreglunnar þar sem kannað er hvort starfsmaður hestaleigunnar verði sektaður fyrir athæfið.

Þá er athyglisvert að minnast þess að þetta er í annað skiptið sem gangandi vegfarandi veldur usla á Suðurlandsveginum á einum sólarhring.

Í nótt var ölvaður maður handtekinn á veginum en hann henti sér fyrir bíla og lét öllum illum látum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×