Innlent

Harpa fær verðlaun ESB fyrir byggingarlist

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Harpa.
Harpa. Mynd/ Vilhelm
Tónlistar- og rástefnuhúsið Harpa fær verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist, kennd við Mies van der Rohe, en þetta var tilkynnt í dag.

Aðalhönnuðir Hörpu eru Teiknistofa Henning Larsen, Batteríið arkitektar og Ólafur Elíasson. Verðlaunaafhendingin fer fram í Barcelona 7. júní.

„Við erum ótrúlega þakklát. Harpa varð að veruleika þökk sé samstarfi fjölda fólks, drifkrafts þeirra og skuldbindinga. Harpa er orðin tákn fyrir endurnýjaðan kraft Íslands,“ segir Peer Teglgaard hjá Teiknistofu Henning Larsen.

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Þau fagna í ár 25 ára afmæli sínu en þau voru sett á stofn árið 1987 af Evrópusambandinu og Stofnun Mies van der Rohe í Barcelona.

Þeim er ætlað að vekja athygli á því sem best er gert í evrópskri byggingarlist og koma allar byggingar sem lokið var við á árunum tveimur fyrir afhendinguna til greina.

Í ár voru 350 byggingar frá 37 Evrópulöndum tilnefndar til verðlaunanna sem nema alls 60 þúsund evrum, eða um níu milljónum króna.

Meðal fyrri sigurvegara má nefna stjörnuarkitekta á borð við Norman Foster, Zaha Hadid og Rem Koolhas. Óperuhúsið í Osló fékk verðlaunin árið 2009.

Nánar um málið má lesa hér.



Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá ræðu Antoni Vives, forseta Mies van der Rohe stofnunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×