Innlent

Hárrétt viðbrögð sundlaugarvarða á Hellu urðu konu til lífs

Birgir Olgeirsson skrifar
Sundlaugin á Hellu.
Sundlaugin á Hellu. Vísir/Aðsend
„Þetta er afrek,“ segir Þórhallur Svavarsson, forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar á Hellu, en hárrétt viðbrögð sundlaugarvarða urðu konu til lífs sem missti meðvitund í sundlauginni á Hellu á laugardag.

Sundlaugarvörður hafði séð konuna á sundi en augnabliki síðar var hún hreyfingarlaus. Brást sundlaugarvörðurinn strax við og voru lífgunartilraunir þegar hafnar. Læknir var kallaður til og var hann snöggur á vettvang en konan var þá komin til lífs og varð ekki meint af.

Þórhallur segir lögreglu og sjúkralið hafa yfirfarið myndskeið úr eftirlitsmyndavélum sundlaugarinnar og er það samdóma álit að allir sem komu að björguninni hefðu brugðist hárrétt við. „Hvort sem það var starfsfólk, sundlaugargestir eða sjúkraliðar.“

Haldinn var fundur með áfallateymi og skyndihjálparkennara í gær og voru allir sammála um að brugðist hefði verið rétt við. „Þarna skilar skyndihjálpar- og björgunarkennslan sér. Hún bjargaði mannslífi þarna.“

Hann segir mikinn létti hafa fylgt því þegar konan komst til meðvitundar á sundlaugarbakkkanum. „Þetta var svakalegur léttir. Hún var búin að synda nokkrar ferðir. Svo allt í einu hættir hún. En hún fer ekki á botninn. Hún flýtur ofan á vatninu. Þannig að það er voða erfitt fyrir sundlaugarverði að sjá að hún er meðvitundarlaus strax. Þannig að við erum alveg í skýjunum,“ segir Þórhallur.

Konan hringdi í íþróttamiðstöðina í gær til að þakka starfsfólkinu fyrir og segir Þórhallur það ekki hafa verið síðri tilfinningu. „Hún ætlar að koma að kíkja á okkur mjög fljótlega.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×