Lífið

Haukur Hákon lætur ekkert stöðva sig og fór upp Esjuna: „Æðislegt að fá að fara alla þessa leið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Haukur Hákon er 15 ára ofurhugi.
Haukur Hákon er 15 ára ofurhugi. vísir.
„Ég hef mjög gaman af útivist, hvort sem það er að ganga, synda, hlaupa eða hvað sem er,“ segir Haukur Hákon Loftsson 15 ára íslenskur strákur sem er með CP lömun en lætur ekkert stöðva sig.

„Það sem einkennir mig er mest gleði, hamingja og sjálfstæði og ég kann að hlusta. Ég er í Langholtskóla og er að fara í 10. bekk. Maður trúir því kannski ekki sjálfur að maður sé að fara í tíunda bekk, því það er svo stutt síðan að maður var bara lítill polli.“

Haukur æfir sund hjá íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík.

„Ég er búinn að æfa sund í fimm ár. Ég er búinn að vera í mörgum íþróttum en mér finnst sundið vera einna allra best. Ég get ekki synt baksund, því þá fer mér að svima og svona. Bringusundið og skriðsundið eru svona mínar aðalgreinar.“

Haukur er ættleiddur frá Indlandi.

„Hann getur ekki staðið uppréttur og gengur því um í göngugrind eða fer um í hjólastól,“ segir Sigrún Hauksdóttir, móðir Hauks, og bætir því við að hann sé alltaf til í allt.

„Hann er alltaf glaður og kátur og aldrei neitt vesen. Þegar að tækifærið gafst hjá Öryggismiðstöðinni að hægt væri að fara upp á Esju þá sóttum við strax um fyrir Hauk, því þetta var frábært tækifæri fyrir hann.“

Haukur lætur ekkert stöðva sig.
„Mér finnst ég fá voðalega mikið út úr því, bæði að hreyfa mig og fá þessa hjálp sem ég þarf að fá. Að fá að prófa að fara á Esjuna í fyrsta skipti var æðislegt.“

Nú á dögunum aðstoðaði Öryggismiðstöðin 24 einstaklinga, með einhverskonar fötlun, upp Esjuna. Var þetta gert í tilefni af tuttugu ára afmæli fyrirtækisins. Haukur var einn af þeim.

„Þetta var rosalega skemmtileg upplifun,“ sagði Haukur rétt áður en hann fór af stað upp fjallið.

„Það er ekkert sjálfgefið að fá vindinn í andlitið og verða skítugur þegar maður er fatlaður,“ segir Sigrún.

„Við vorum alltaf með það markmið að komast alla leið. Strákarnir sem voru að aðstoða mig voru alveg búnir á því en þetta hafðist að lokum. Við komumst upp að Steini og náðum að taka myndir. Þetta var alveg æðislegt, æðislegt að fá að fara alla þessa leið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.