Innlent

HBT hætti við eftir mælingar

Vélarhús Með rafgreiningu þar sem rafgeymir bíls er notaður til að kljúfa vetni úr vatni telja sumir að draga megi úr eyðslu bíla.Fréttablaðið/SJÓ
Vélarhús Með rafgreiningu þar sem rafgeymir bíls er notaður til að kljúfa vetni úr vatni telja sumir að draga megi úr eyðslu bíla.Fréttablaðið/SJÓ
Vetnisbúnaður sem draga átti úr eldsneytisnotkun bifreiða stendur ekki undir væntingum, að því er fram kemur í umfjöllun Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Í frétt á vef Mbl.is um Thor Energy Zolutions var því haldið fram að búnaðurinn gæti dregið úr eldsneytisnotkun bíla og bifhjóla um allt að 30 prósent, auk þess að auka afl og draga úr mengun. Búnaðurinn kostar frá tæpum 70 þúsund krónum og upp í um 130 þúsund.

„Ef þú ætlar að framleiða vetnið um borð í bílnum ertu farinn að brenna eldsneyti sem nemur því vetni sem framleitt er í bílnum þannig að í raun á enginn orkuávinningur sér stað. Eldsneytissparnaður upp á jafnvel 30 prósent er einfaldlega óhugsandi,“ hefur fréttavefur FÍB eftir, Ágústu Loftsdóttur eðlisfræðingi og sérfræðingi hjá Orkustofnun, um hvers konar eldsneyti sem nýta má á bíla.

Íslenska tæknifyrirtækið HB tækniþjónusta (HBT) ætlaði að framleiða vetnisbúnað fyrir stórar dísilrafstöðvar, búnað sem byggir á sömu hugmyndafræði og hjá Thor Energy Zolutions.

Jóhann Benediktsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, segir þær áætlanir hafa verið slegnar af eftir mælingar. Hann segir þó ekki hafa verið stefnt að meiri árangri en 2 til 5 prósenta minni eldsneytiseyðslu.

„En ég vil ekki gera lítið úr því að vel geti verið að búnaðurinn þeirra auki afl vélanna. En þessar sparnaðartölur standast ekki,“ segir hann.

- óká



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×