Innlent

Hef á tilfinningunni að ég verði sakfelld

Sólveig Anna Jónsdóttir leikskólastarfsmaður er ásamt átta öðrum ákærð fyrir árás á Alþingi í búsáhaldabyltingunni. Hún segir sakargiftirnar svívirðilegar.
Sólveig Anna Jónsdóttir leikskólastarfsmaður er ásamt átta öðrum ákærð fyrir árás á Alþingi í búsáhaldabyltingunni. Hún segir sakargiftirnar svívirðilegar. Mynd/Anton Brink

Mál níu mótmælenda sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi í desember 2008 verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir eiga yfir höfði sér að minnsta kosti eins árs fangelsi verði þeir fundnir sekir.

Sólveig Anna Jónsdóttir leikskólastarfsmaður er meðal sakborninga. Hún segir það hafa komið sér á óvart að vera ákærð fyrir árás á Alþingi, samkvæmt 100. grein hegningarlaga.

„Mig grunaði að það yrði gefin út ákæra, eins og menn létu á sínum tíma. Ég var yfirheyrð tvisvar, í seinna skiptið sótti lögreglan mig í vinnuna, og það var greinilegt að það átti að taka okkur föstum tökum. En mér datt ekki í hug að viðbrögðin yrðu svona hysterísk. Það er svívirðilegt að krefjast refsingar samkvæmt 100. grein hegningarlaga og liggur við að maður tali um pólitískar ofsóknir."

Sólveig Anna segir það óþægilega tilhugsun að eiga á hættu að verða dæmd. „Eins og staðan er núna þá hef ég á tilfinningunni að ég verði sakfelld. Ég vona auðvitað að svo fari ekki. Ef fólk fer yfir gögnin sést að þar stendur ekki steinn yfir steini, en satt best að segja býst ég við því að fá dóm." Spurð hvort hún óttist að fara í fangelsi segist hún ekki hafa leitt hugann að því. „Ég leyfi mér ekki að hugsa svo langt en það yrði ábyggilega ömurleg lífsreynsla."

Sólveig Anna telur að með því að ákæra mótmælendur fyrir árás á Alþingi séu yfirvöld að senda skilaboð um að hart verði tekið á mótmælum á borð við þau sem urðu í búsáhaldabyltingunni. „Það er í raun verið að hræða fólk frá því að taka þátt í mótmælaaðgerðum á tímum þegar það hefur sjaldan eða aldrei verið jafnmikil ástæða til að mótmæla."

Sólveig Anna segist vona að ekki komi til átaka í dag, eins og gerðist við fyrirtöku málsins 30. apríl síðastliðinn. Ekki var nægur sætafjöldi fyrir áhorfendur og var þeim sem ekki höfðu sæti gert að víkja þaðan. Þegar sumir viðstaddra neituðu að hlíta fyrirmælunum voru þeir fjarlægðir með valdi. Bón um að fyrirtakan í dag færi fram í stærri dómsal var synjað.

„Réttarhaldið er eftir sem áður opið," segir hún. „Ég vona að lögreglan virði það og hemji sig."

bergsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×