Innlent

Heilbrigðisráðherra vill samvinnu við sveitarfélög

Heilbrigðisráðherra segir að sameining heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu dugi ekki ein og sér til að mæta kröfum um niðurskurð. Hann vill aukna samvinnu við sveitarfélög í þessum málum.

Heimilislæknar hafa gagnrýnt harðlega áætlanir um sameiningu heilsugæslustöðva og talið að þær gangi gegn almannahagsmunum. Þá hafa íbúar lýst yfir áhyggjum sínum með að stefnt sé að því að loka heilsugæslustöðvum.

Málefni heilsugæslunnar voru rædd í borgarstjórn í dag. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, sagði æskilegt að heilsugæslustöðvar væru í göngufæri.

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði í samtali við fréttastofu að kanna ætti aðra möguleika en sameiningu til að skera niður og nefndi að sameining þýddi ekki endilega lokun.

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra, segir að ekki hafi verið fallið frá áformum um sameiningu. Hann hefur falið framkvæmdastjórn heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að vinna að eflingu heilsugæslu.

„...og reyna að ná samstarfi við sveitarfélögin sem eiga hagsmuna að gæta, en fókusinn á að vera fyrst og fremst á þá þjónustu sem veitt er í hverfunum," segir Guðbjartur.

Fyrir heilbrigðiskerfinu liggur krafa um 5% niðurskurð á næsta ári. Að því gefnu að heilsugæslustöðvar verði sameinaðar, þá nær það fram einhverjum sparnaði, en dugir það til þess að mæta þessum niðurskurði á næsta ári?

„Ég held að það náist ekki bara með sameiningu heilsugæslustöðva að ná þeim sparnaði sem þarf að nást," segir Guðbjartur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×