Innlent

Heimafæðingum hefur fjölgað um tæp 300 prósent hér á landi

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Á Íslandi hefur heimafæðingum fjölgað töluvert. Á síðustu 10 árum hafa þær aukist um tæp 300 prósent.

Samkvæmt fæðingaskrá voru heimafæðingar 25 talsins árið 2002 og líkt og sjá má hefur þeim konum er kjósa að fæða heima fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin. Í fyrra voru skráðar heimafæðingar 99 talsins.

Í nýrri bandarískri rannsókn sem framkvæmd var af vísindamönnum við New York-Presibyterian Hospital og Weill Cornell Medical Center, kemur fram að heimafæðingar auki líkur á andvana fæðingum, flogum og öðrum taugafræðilegum röskunum.

Rannsóknin er ein sú stærsta sem gerð hefur verið og tók mið af um 13 milljónum fæðinga þar í landi.

Björkin sinnir heimafæðingum á Íslandi.

Forsvarskonur þjónustunnar þær Arney Þórarinsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir, heimafæðingaljósmæður, segja ekki hægt að yfirfæra bandarískar rannsóknir á Ísland.

Hér sé allt annað heilbrigðiskerfi, menntunarstig ljósmæðra sé hærra og samstarf við fæðingadeildir gott.

Þeim þykir mikilvægt að koma á framfæri að fæðing sé ekki sjúkdómsástand og að þær konur sem kjósa að fæða heima taki upplýstar ákvarðanir.

„Ef það er eitthvað sem við höfum áhyggjur af þá mælum við að sjálfsögðu með því að konan flytjist á spítala, og við förum þá með henni þangað,“ segir Arney.

„En við mælum ekki með því fyrir allar konur að fæða heima,“ segir Hrafnhildur.

„Nei það geta ekki allar konur fætt heima. Það skiptir miklu máli að þar sé hraust kona í eðlilegri meðgöngu sem velur heimafæðingu,“ segir Arney og bætir við að öll leyfi fyrir starfseminni komi frá Landlækni. „Við fyllum út umsókn til að fá þetta leyfi og þetta eru svona lágmarkskröfur sem við þurfum að uppfylla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×