Skoðun

Heimsmeistari í kynjajafnrétti?

Margrét Steinarsdóttir skrifar

Síðastliðinn fimmtudag kynnti vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um mismunun gagnvart konum í löggjöf og framkvæmd bráðabirgðaniðurstöður úr heimsókn sinni til Íslands. Í lauslegri þýðingu er yfirskrift skýrslu þeirra „Ekkert rúm fyrir slökun hjá heimsmeistaranum í kynjajafnrétti“.

Þar vísa þau til að samkvæmt World Economic Forum er jafnrétti kynjanna mest á Íslandi. Þau hrósa Íslandi til dæmis fyrir það hversu vel hafi tekist til við að samræma atvinnu og fjölskyldulíf, kynjaða hagstjórn og löggjöf um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, bann við kaupum á vændi og ein hjúskaparlög fyrir alla. Hins vegar telur vinnuhópurinn að á tveimur sviðum sé úrbóta þörf, þ.e. á vinnumarkaði og hvað varðar kynbundið ofbeldi.

Gagnrýnir hópurinn m.a. launamun kynjanna sem eigi sér rót í kynskiptum vinnumarkaði og því hversu fáar konur gegni stjórnunarstöðum. Þau gagnrýna einnig að í íslenskum hegningarlögum sé ekki að finna sérstakt ákvæði er taki til ofbeldis í nánum samböndum (heimilisofbeldis), hversu sjaldan nálgunarbanni sé beitt og til hve skamms tíma það nái.

Þá lýsir vinnuhópurinn verulegum áhyggjum af því að fimm árum eftir athugasemdir kvennanefndar SÞ varðandi það hversu fá kynferðisbrotamál sem kærð eru til lögreglu enda með saksókn og sakfellingu skuli engin breyting hafa orðið þar á. Leggja þau til að stjórnvöld grípi til aðgerða til að bæta refsivörslukerfið.

Þau benda einnig sérstaklega á stöðu innflytjendakvenna og hvetja til stuðnings við samtök sem miða að því að gera innflytjendum, einkum konum, mögulegt að taka þátt í efnahags- og félagslífi, sem og opinberu og stjórnmálalífi á Íslandi.

Loks hvetur vinnuhópurinn til að sett verði löggjöf um bann við mismunun og að starfsemi Jafnréttisstofu verði styrkt. Mannréttindaskrifstofa Íslands tekur heils hugar undir athugasemdir nefndarinnar. Þótt með sanni megi segja að staða jafnréttismála á Íslandi sé góð miðað við mörg önnur ríki, þá eru þó alvarlegir brestir þar á, svo sem rakið hefur verið hér að framan.

Betur má ef duga skal og hvetur Mannréttindaskrifstofan nýja ríkisstjórn til að setja jafnréttis- og mannréttindamál í forgang og grípa til viðeigandi aðgerða til að taka á þeim úrlausnarefnum sem fyrir liggja.




Skoðun

Sjá meira


×