Skoðun

Heimurinn fylgist með RÚV

Erlendir tónlistarmenn skrifar
Ísland er menningarþjóð. Við undirrituð vitum þetta vel af eigin reynslu. Við erum tónlistarfólk frá ýmsum löndum: hljómsveitarstjórar, hljóðfæraleikarar, söngkona og tónskáld. Við eigum það sameiginlegt að hafa öll haldið eftirminnilega tónleika fyrir forvitna, víðsýna og menntaða áheyrendur á Íslandi.

Við höfum miklar áhyggjur af framtíð Ríkisútvarpsins á Íslandi. Okkur hefur borist til eyrna að í síðustu viku hafi 39 verið sagt upp störfum samstundis og að hótað sé enn fleiri uppsögnum. Rás 1, menningarrásin, hefur fengið harðasta skellinn, ekki síst tónlistardeildin. Af öllu starfsliði hennar eru nú aðeins tveir eftir.

Framvegis verða þar engir sérfræðingar í barokktónlist, djassi eða samtímatónlist, enginn kynnir frá sinfóníutónleikum, enginn sérmenntaður tónmeistari til að hljóðrita klassískan tónlistarflutning.

Allt frá því að Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930 hefur það verið meginstoð í íslensku menningarlífi. Það hefur sent út metnaðarfulla þætti og hljóðritað þúsundir tónleika. Hljóðritasafn Ríkisútvarpsins er ómetanleg heimild um tónlistarflutning á Íslandi á 20. og 21. öld. Við höfum öll verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með frábæru starfsfólki RÚV; þau hafa hljóðritað og sent út tónleika okkar í Háskólabíói, Hörpu, Laugardalshöllinni og fleiri tónleikastöðum. Okkur þykir grátlegt að nú sé þessu metnaðarfulla starfi teflt í tvísýnu.

Við höfum fullan skilning á því að Ísland er í vanda statt hvað efnahag varðar. En við gerum okkur einnig grein fyrir því að RÚV hefur gegnt lykilhlutverki í íslensku þjóðlífi, verið „háskóli fólksins“, farvegur gagnrýninnar umræðu og hefur staðið vörð um hugsjón um upplýst, menntað samfélag.

Hinn grimmilegi niðurskurður á Ríkisútvarpinu er ekki nauðsyn, heldur ákaflega misráðið val. Með brottrekstrinum er gerð atlaga að einni af meginstoðum íslensks tónlistarlífs. Þessi ákvörðun er til marks um forgangsröðun sem brýtur gegn lögbundnu hlutverki RÚV, þar sem kveðið er á um að stofnunin skuli uppfylla „menningarlegar þarfir“ íslensku þjóðarinnar.

Við undirrituð hvetjum stjórn RÚV, Alþingi Íslendinga og menntamálaráðherra að beita sér í málinu þegar í stað. Heimurinn fylgist með ykkur.

Vladimir Ashkenazy píanóleikari og hljómsveitarstjóri

Leif Ove Andsnes píanóleikari

Rumon Gamba hljómsveitarstjóri

Hilary Hahn fiðluleikari

Pekka Kuusisto fiðluleikari

Nico Muhly tónskáld

Viktoria Postnikova píanóleikari

Gennady Rozhdestvensky hljómsveitarstjóri

Kiri Te Kanawa söngkona

Osmo Vänskä hljómsveitarstjóri

Martin Fröst klarínettuleikari






Skoðun

Sjá meira


×