Viðskipti innlent

Heitt vatn í sprungum tefur gangagröft

Haraldur Guðmundsson skrifar
Vaðlaheiðargöng stytta vegalengdina milli Akureyrar og Húsavíkur um sextán kílómetra.
Vaðlaheiðargöng stytta vegalengdina milli Akureyrar og Húsavíkur um sextán kílómetra. Mynd/Auðunn Níelsson
Um fimmtíu gráða heitt vatn sem kemur úr sprungum í Vaðlaheiðargöngum hægir enn á gangagrefti. Verktakar Ósafls hafa undanfarnar vikur þurft að þétta berg í kringum nokkur sprungusvæði í göngunum.

„Við erum einungis að sprengja tíu til fimmtán metra í einu og svo er sementi með íblöndunarefnum dælt ofan í sprungurnar,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.

Göngin eru nú 2.022 metra löng sem er um 28 prósent af heildarlengd þeirra. Verktakarnir komu fyrst að heitu vatni þegar göngin voru 1.900 metra löng.

„Við skiptumst á að sprengja og þétta berg. Svona mun þetta ganga þangað til við komumst fram hjá þessum sprungusvæðum,“ segir Valgeir.

Fyrsta sprungan kom í ljós í febrúar og vatn úr henni myndar nú talsverða gufu við gangamunnann og hita og raka innar í göngunum.

„En það eru ágætis aðstæður innst inni í göngunum og verða það svo lengi sem við fáum ekki meira vatn við stafninn.“

Valgeir segir að vinna Fnjóskadalsmegin hefjist að öllum líkindum í maí.

„Þá verður snjórinn vonandi farinn. Ef ekki þá tefst þetta eitthvað því menn ætla ekki að eyða tíma í að moka snjó,“ segir Valgeir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×