Innlent

Helle ræddi um makrílveiðar við Jóhönnu

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Helle Torning-Schmidt skemmti sér vel á Alþingi í dag, ólíkt flestum þeim sem þar vinna þessa dagana.
Helle Torning-Schmidt skemmti sér vel á Alþingi í dag, ólíkt flestum þeim sem þar vinna þessa dagana. MYND /Anton Brink
Forsætisráðherra Danmerkur segir Dani styðja aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og vonast til að viðræðurnar haldi áfram af krafti. Hún ræddi evrópumálin og makrílveiðar við Jóhönnu Sigurðardóttur í opinberri heimsókn til Íslands í dag.

Helle Torning-Schmidt forsætisráðherra Danmerkur lenti á Reykjavíkurflugvelli í hádeginu í dag. Hún stoppar hér á landi í tæpan sólarhring og hóf heimsóknina á Þingvöllum þar sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður tóku á móti henni við Hakið og gengu þau saman í gegnum þjóðgarðinn. Helle var mjög áhugasöm um sögu Þingvalla og fræddi Ólafur hana um þinghald fyrr á tímum og þróun svæðisins á síðustu árum.

Að lokinni göngu um svæðið funduðu Jóhanna og Helle í Ráðherrabústaðnum á Þingvöllum.

„Danmörk og Ísland eru góðir nágrannar og vinátta landanna stendur á gömlum merg. Við höfum auðvitað rætt vandann sem ríkir í Evrópu og ástandið þar. Einnig þróunina sem mun eiga sér stað í Evrópu í náinni framtíð. Við fjölluðum um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu og viðræðurnar um makrílveiðar hafa þá óneitanlega borið á góma. Það málefni er auðvitað ofarlega á baugi bæði í ESB og á Íslandi." segir Helle.

Hún segir Dani vera mikla stuðningsmenn við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og vonast til þess að viðræðurnar muni halda áfram af sama krafti og hefur verið á meðan Danir hafa gegnt formennsku í sambandinu.

„Við höfum notið góðs af því að þeir hafa verið mjög jákvæðir eins og margar aðrar þjóðir innan Evrópusambandsins og formennskan hefur verið hjá Helle núna og það hefur hjálpað okkur mikið. Hún hefur talað máli okkar mjög vel í Evrópusambandinu," segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Síðdegis heimsótti Helle Alþingishúsið en í kvöld mun hún snæða kvöldverð í Þjóðmenningarhúsinu í boði Jóhönnu Sigurðardóttur og frú. Helle heldur síðan til Grænlands á morgun en þar mun hún dvelja í fjóra daga til að ræða við ráðamenn þar í landi, meðal annars um varnarmál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×