Enski boltinn

Henry: Óánægðir leikmenn mega fara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Henry, eigandi Liverpool.
John Henry, eigandi Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

John Henry, eigandi Liverpool, segir að óánægðum leikmönnum sé frjálst að fara frá félaginu.

Margir af sterkustu leikmönnum Liverpool hafa verið orðaðir við önnur félög að undanförnu, til að mynda Fernando Torres, Jose Reina og Dirk Kuyt.

Henry segir að engum leikmanni verði haldið hjá félaginu gegn vilja þeirra. Honum kemur á óvart hversu mikið vald leikmenn virðast hafa þegar kemur að samningamálum.

„Þetta er allt annað en því sem við erum vanir í Bandaríkjunum. Leikmenn þar verða að klára sína samninga en hér virðist sem svo að leikmenn hafi meira að segja um sín mál," sagði Henry.

„En í hreinskilni sagt viljum við ekki hafa leikmann hjá félaginu sem vill ekki vera hér," bætti hann við.

Henry segir þó að það hafi komið sér á óvart að lesa í fjölmiðlum að leikmenn eins og Torres og Reina vildu fara frá félaginu. Hann hafi til að mynda átt gott spjall við Torres.

„Einn daginn las ég að félagið ætlaði ekki að breyta leikmannahópnum í næsta félagaskiptaglugga og svo degi síðar las ég að Torres og Reina væru að fara."

„Ég hef rætt við marga af okkar bestu leikmönnum og fannst gott að heyra það sem þeir höfðu að segja. Þeir skilja betur um hvað Liverpool snýst en við. Þetta voru góðar umræður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×