Innlent

Hér er örugglega skilið vel við, segir Bjarni

Upprifjun við valdaskipti Bjarni Benediktsson tók við lyklum að fjármálaráðuneytinu úr hendi Katrínar Júlíusdóttur í gær. Við það tækifæri rifjuðu þau upp þegar þau komust bæði inn á þing árið 2003.fréttablaðið/vilhelm
Upprifjun við valdaskipti Bjarni Benediktsson tók við lyklum að fjármálaráðuneytinu úr hendi Katrínar Júlíusdóttur í gær. Við það tækifæri rifjuðu þau upp þegar þau komust bæði inn á þing árið 2003.fréttablaðið/vilhelm

Valdaskipti urðu í gær þegar ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum. Sigmundur Davíð varð í gær yngsti forsætisráðherra í lýðveldissögunni, rétt rúmlega 38 ára gamall.

Jóhanna Sigurðardóttir fráfarandi forsætisráðherra færði Sigmundi bók að gjöf við það tilefni, bók um jöfnuð í samfélaginu. „Þegar ég kom hingað, og mín ríkisstjórn, þá var mikill ójöfnuður í samfélaginu, en nú er staðan þannig að jöfnuður er hvað mestur hér,“ sagði Jóhanna við það tækifæri.

Bjarni Benediktsson tók við lyklunum að fjármálaráðuneytinu úr höndum Katrínar Júlíusdóttur. Hann þakkaði Katrínu fyrir og bætti við:

„Ég veit að við munum áfram eiga gott samstarf og hér er örugglega skilið vel við gagnvart verkefninu, viðtakanda og þessu fólki sem hér vinnur.“

Fyrr um daginn hafði Jóhanna Sigurðardóttir beðist lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína á Bessastöðum. Fljótlega að þeim fundi loknum var haldinn annar ríkisráðsfundur þar sem hin nýja ríkisstjórn tók við, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Jóhanna hættir nú afskiptum af stjórnmálum, en hún var fyrst kjörin á Alþingi árið 1978.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×