Innlent

Herflugvélar hætti að lenda í Reykjavík

Jón Gnarr vill banna umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll. 
Fréttablaðið/stefán
Jón Gnarr vill banna umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll. Fréttablaðið/stefán

Jón Gnarr borgarstjóri vill að borgin skori á utanríkisráðuneytið og flugmálayfirvöld að banna umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll nema þegar hann þjónar hlutverki sem varaflugvöllur. Jón lagði fram tillögu þess efnis á fundi ráðsins í síðustu viku. Afgreiðslu hennar var frestað.

Í greinargerð með tillögunni segir að Íslendingar búi að aldargamalli friðarhefð, þjóðin sé herlaus og vilji leggja sitt af mörkum til að stuðla að friði í heiminum.

Þar segir jafnframt að samkvæmt upplýsingum frá Isavia hafi ellefu skilgreindar herflugvélar lent á Reykjavíkurflugvelli á þessu ári. Þær hafi verið 28 á síðasta ári.

„Fram hefur komið að flugmálayfirvöld skorti heimild til að afla upplýsinga um farm herflugvélanna í styttri stoppum. Þau hafa því ekki upplýsingar um hvort vélarnar beri hættuleg vopn, sprengiefni eða kjarnavopn til landsins svo dæmi séu nefnd,“ segir í greinargerðinni.

Þar er athygli jafnframt vakin á því að breska herstjórnin hafi ekki leitað leyfis borgaryfirvalda áður en hún hóf vinnu við flugvallarsvæðið árið 1940. Þáverandi borgarstjóri, Bjarni Benediktsson, hafi lýst áhyggjum af því að flugvöllur í bænum kynni að auka hættuna á að hann yrði fyrir hernaðarárás, ekki síst ef hann væri beinlínis ætlaður fyrir herflugvélar.

„Friðsöm og ábyrg borgar­yfirvöld geta ekki unað við óbreytt ástand á Reykjavíkurflugvelli,“ segir borgarstjóri.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×