Innlent

Hestaflensan getur borist í menn

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir að nú hafi komið í ljós að fólk sem sinnir hrossum geti smitast.
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir að nú hafi komið í ljós að fólk sem sinnir hrossum geti smitast. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Hestaflensan sem herjað hefur á hross á landinu getur borist í menn. Landlæknisembættið vekur athygli á þessu og hvetur þá sem sinna hestum til að gæta fyllsta hreinlætis.

Fjöldi hrossa hefur sýkst af hóstapestinni sem herjað hefur á hross í landinu síðustu vikur og mánuði. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir að nú hafi komið í ljós að fólk sem sinnir hrossum geti smitast.

„Við viljum vekja athygli á þeim sem eru að sinna veikum hrossum að gæta fyllsta hreinlætis," segir Haraldur. Mikilvægast er að fólk þvoi sér vel um hendur eftir að hafa sinnt hrossunum og noti andlitsgrímur ef það er í nánum tengslum við öndunarvegi hestanna.

Sýkingin er streptokokkasýking sem getur valdið hálsbólgu í mönnum. „Þetta getur líka í stöku tilfellum valdið sýkingum annars staðar í líkamanum og valdið alvarlegri einkennum. Ég endurtek að þetta er mjög sjaldgæft."

Fái fólk sem umgengst hesta náið hita og hálssærindi ætti það að leita læknis, að mati Haralds. Hægt er að staðfesta sýkingu með hálsræktun. Læknir metur hvort ástæða sé til meðhöndlunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×