„Við stóðum í þeim og fengum dauðafæri í fyrri hálfleik þar sem við hefðum átt að skora. Svo fór þetta aðeins að leka hjá okkur þegar við missum markmanninn útaf,“ sagði Gunnar Sigurður Jósteinsson fyrirliði Völsungs eftir 2-0 tap gegn Fylki í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla.
Gunnar Sigurður fékk það hlutskipti að fara í markið þegar 22 mínútur voru eftir af leiknum. Dejan Pesic, markvörður liðsins, meiddist á 68. mínútu og gestirnir voru ekki með varamarkvörð á bekknum.
„Hann er búinn að vera öflugur og það er mikill talandi í honum. Hann verður klár í næsta leik," sagði Gunnar. Staðan var markalaus þegar Pesic fór meiddur af velli en Viðar Örn Kjartansson skoraði bæði mörk Fylkis seint í leiknum.
„Það komu nokkur skot á mig en ég hefði átt að verja fleiri. Seinna markið var klaufalegt,“ sagði Gunnar en Völsungur gerði sex breytingar frá síðasta leik í kvöld.
„Við gerðum nokkrar breytingar enda er ekki búið að ganga vel í deildinni. Þetta lið vann síðasta bikarleik og fékk aftur tækifæri núna en við töpuðum í dag. Það er númer eitt, tvö og þrjú að fara að sækja sigur í deildinni,“ sagði Gunnar Sigurður.
Umfjöllun og viðtöl úr Árbænum í kvöld má finna hér.
