Erlent

Hjónabönd samkynhneigðra ekki mannréttindi

Óli Tynes skrifar
Fellur ekki undir almenn gildi.
Fellur ekki undir almenn gildi.

Það voru tveir Austurríkismenn sem fóru með mál sitt fyrir mannréttindadómstólinn eftir að þeim var synjað um að ganga í hjónaband á þeim forsendum að það gilti aðeins fyrir samband manns og konu.

Lögmenn Austurríkismannanna töldu það brjóta í bága við 12. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem stendur að allir karlar og konur eigi rétt á að ganga í hjónaband.

Dómstóllinn sagði hinsvegar að ekki væri hægt að túlka þessa málsgrein þannig að allir karlar og konur eigi rétt á hjónabandi án tillits til þess hvers kyns makinn sé.

Dómstóllinn komst þvert á móti að þeirri niðurstöðu að löndum sé ekki skylt að leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Þeim sé ekki einusinni skylt að leyfa staðfesta sambúð.

Hjónabönd samkynhneigðra teljist ekki til almennra gilda í Evrópu og því geti hvert land fyrir sig ákveðið hvernig það tekur á þessum málum.

Með breytingum á hjónabandslögum sem tóku gildi hér um síðustu helgi er Ísland eitt af níu löndum í heiminum sem leyfir samkynhneigðum að ganga í hjónaband.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×