Skoðun

Hlutdrægni

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Að undanförnu hefur María Lilja Þrastardóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifað hverja fréttina á fætur annarri um veitingahúsin Vip Club og Crystal. Blaðamaðurinn er harður femínisti og talskona Druslugöngunnar, sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að lífsskoðanir blaðamannsins virðast þvælast fyrir henni í vinnunni með þeim afleiðingum að blaðamanninum er ómögulegt að nálgast viðfangsefnið af hlutlægni.



Af fréttum Fréttablaðsins er ljóst að allir viðmælendur blaðamannsins hafa verið valdir af kostgæfni og þess vandlega gætt að skoðanir þeirra falli að skoðunum blaðamannsins á málinu. Hafi viðmælandinn ekki kveðið nægilega fast að orði þá virðist blaðamaðurinn heldur ekki víla það fyrir sér að færa orð hans í stílinn eða hafa eitthvað eftir viðmælandanum sem viðkomandi kannast síðar ekki við að hafa sagt.



Rangt haft eftir

Í Fréttablaðinu, 19. júlí sl, hafði blaðamaðurinn tiltekin orð eftir framkvæmdastýru vændisathvarfsins sem framkvæmdastýran neitaði síðar að hafa viðhaft, sbr. bréf lögmanns framkvæmdastýrunnar, dags. 22. júlí sl., til greinarhöfundar, þar sem lögmaðurinn segir að umbjóðandi hans hafi aldrei fullyrt í samtali við blaðamanninn að vændisstarfsemi eða mansal væri stundað á umræddum kampavínsklúbbum og að ummælin séu ekki rétt höfð eftir umbjóðanda hans.



Í Fréttablaðinu, 23. júlí sl., birtist síðan enn ein fréttin eftir blaðamanninn. Fyrirsögn fréttarinnar var „Formaður borgarráðs dregur starfsleyfi í efa“ og undirfyrirsögn „Formaður borgarráðs segir að klúbbarnir sem um ræðir hafi ekki leyfi fyrir starfseminni sem þeir reki“.



Í fréttinni er síðan vitnað beint í Dag B. Eggertssonar, formann borgarráðs, sem upplýsti að klúbbarnir hafi sótt um hefðbundið vínveitingaleyfi enda séu engin sérstök vínveitingaleyfi gefin út lengur, þ.e. leyfi fyrir annarri starfsemi en barrekstri. Hvergi í fréttinni er haft eftir formanni borgarráðs að hann dragi starfsleyfi framangreindra staða í efa. Hvað þá heldur að veitingahúsin sem um ræðir hafi ekki tilskilin rekstrarleyfi.



Fyrirsögn og undirfyrirsögn fréttarinnar sem blaðamaðurinn lætur líta út fyrir að séu hafðar beint eftir formanni borgarráðs virðast því ekki frá honum komnar. Það er einlæg von mín að blaðamaðurinn hætti að láta eigin lífsskoðanir byrgja sér sýn í starfi sínu sem blaðamaður. Lesendur Fréttablaðsins eiga það skilið.




Skoðun

Sjá meira


×