Fastir pennar

Hlutir sem skipta máli

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Ég heyrði byrjunina á uppgjöri vikunnar í útvarpsþætti nú fyrir helgi. Einn var spurður að því hvað honum hefði nú fundist eftirtektarverðast í nýliðinni viku og svaraði eitthvað á þessa leið: „Það var verið að taka upp tvo nýja kafla í aðildarviðræðum Íslendinga og Evrópusambandsins…" Smá þögn og maður sá fyrir sér furðu lostin andlit viðmælenda þar til hann losaði um spennuna á hárréttu augnabliki: „Djók!" Fór svo að tala um hluti sem skipta máli: landsleikinn og veðrið.

Allir hlógu – líka ég. Það var svo fyndið hvernig hann sagði það. Og ekkert gat verið jafn innilega óáhugavert og fréttir af þessum viðræðum við bandalag sem færustu lesendur þjóðarsálarinnar segja að við munum aldrei nokkurn tímann ganga í.

Manni skilst að nú fari aðalsamningamaður Íslendinga um landið og kynni fólki stöðuna í þessum viðræðum. Ætli það séu ekki hálfgerð svipugöng? Um leið og hann byrjar að tala fara allir að halda fyrir eyrun og æpa. Það má enginn heyra það sem hann kann að hafa að segja. Það má ekki byggja Evrópu-umræðuna á staðreyndum. Það má alls ekki komast að því hvað aðild að ESB gæti þýtt fyrir lífskjör á Íslandi.

Hætta skal leik…Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu vilja ekki ljúka viðræðum heldur hætta þeim. Þeir vilja koma í veg fyrir að niðurstaða fáist úr viðræðunum og kosið verði um aðild í kjölfar þess. Ein skýring er langsamlega nærtækust á þessari afstöðu: Andstæðingar aðildar óttast að aðild verði frekar samþykkt í kosningum um niðurstöður aðildarviðræðna en kosningum þar sem enginn veit neitt um neitt – þeir vilja ekki að neinn viti neitt um neitt. Þeir vilja að við rífumst á grundvelli þess sem við höldum, okkur minnir, okkur finnst, við óttumst, einhver sagði að einhver hefði sagt. Þeir vilja að við rífumst um grundvöllinn. Þeir vilja að við rífumst. Þeir deila og drottna. Við deilum og brotnum.

Þeir telja líklegra að málstaður sinn sigri viti þjóðin ekki hvaða kostir bjóðast með aðild að Evrópusambandinu. Þeir telja að eftir því sem fólk viti meira um það hvað aðild að ESB táknar, þeim mun líklegra sé það til að kjósa þá aðild.

Væru þeir vissir um að þjóðin myndi hafna aðild að undangengnum samningum – á grundvelli þekkingar – myndu þeir vilja þann kost frekar og þar með fá málið endanlega út úr heiminum, slíkt rothögg sem það væri fyrir stuðningsmenn aðildar að ESB.

Og þar með geta Íslendingar haldið áfram að segja Evrópusambandinu að það geti sjálft átt sinn helvítis tjakk.

Á færibandi lagannaÁrum saman hefur Evrópuumræðan hér á landi snúist um það hvort hún eigi að fara fram – hvort hún sé „á dagskrá", jafn einkennilega og það nú hljómar hjá þjóð sem hefur lönd í Evrópu sem helsta markað fyrir varning sinn, dregur dám af evrópsku stjórnarfari og stjórnsýsluvenjum, tengist Evrópu djúprættum menningarlegum böndum – er í Evrópu – og fær stóran lagapakka á hverju ári frá Brussel til samþykktar eða samþykktar. Margir vilja frekar að Íslendingar standi álengdar bölvandi og þiggjandi en að taka þátt í því að móta þær reglur og viðmiðanir sem okkur er gert að starfa eftir með þeim lögum sem hingað berast þjóðþinginu og það staðfestir eins og annars hugar verkafólk við færiband.

Gagnvart ESB eru Íslendingar á köflum eins og einstaklingur sem haldinn er félagsfælni og finnur margar mislangsóttar ástæður fyrir því að mæta ekki í boð sem hann þó langar svolítið til að sækja. Hann minnist þess þegar hann fór síðast – í kjölfar EES-samningsins – og hann drakk yfir sig og sló alla um pening og keypti fyrir hann öll þau fyrirtæki sem á vegi hans urðu…

Vera má að mörgum hér þyki það þjóðleg dyggð að greiða sturlaða vexti, líti á krónuna sem ámóta þjóðargersemi og lundann, vilji að Osta- og smjörsalan sjái bara um ostana og Holtakjúklingur um kjötið, Mjólkursamsalan um mjólkurvörurnar og Baugur um verðlagið. Og íslenski kvótafurstinn sem á allt og má allt og vill fá allt með afskriftum eigi bara að stjórna hér efnahagsmálum eins hann hefur fengið að gera síðan gengisfellingin var fundin upp handa honum. Vera má að margir séu andvígir betri lífskjörum því þau geri þjóðina deiga – það séu aðrir hlutir sem skipti máli – en er það virkilega jafn útbreitt viðhorf og ætla mætti af umræðum?

Furðu lítið er talað um lífskjör almennings þegar þetta bandalag ber á góma, hvort aðild að því sé til þess fallin að bæta þau, sem ætti þó að vera meginatriði umræðunnar. Þeir hlutir sem skipta máli. Við fáum þeim mun meira að heyra lýsingar á sambandinu sem eins konar nasistafélagsskap og makrílsmorðingjum; að ógleymdum tárvotum bollaleggingum um fullveldisframsal sem fyrir löngu átti sér stað með aðildinni að EES. En á meðan við erum svona áhugalaus um lífskjörin – sjálfstætt fólk – og viljum frekar sá í akur óvinar okkar, þá er hættan sú að unga fólkið okkar, hæfileikafólkið, barnafólkið, uppbyggingarfólkið, taki sig upp með búslóð sína og hreinlega gangi sjálft í Evrópusambandið eftir landganginum út úr flugvélunum.






×