Skoðun

Hlutverk Íslands innan ESB

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
Ég er ein af þeim sem telja að aðild að Evrópusambandinu verði til hagsbóta fyrir Íslendinga. Það er ekki vegna þess að ég telji að við verðum rík af sjóðum sambandsins og það er heldur ekki mín skoðun að sjálfræði okkar muni aukast. Ég tel ekki heldur að ESB sé svar við öllum okkar vandamálum og þaðan af síður tel ég að sjónarhorn okkar muni ráða ferðinni innan sambandsins.

Ég tel aftur á móti að Ísland hafi mikið að bjóða grönnum sínum í Evrópu og ég tel að við höfum skyldur til að miðla þeim verðmætum sem við höfum. Þá er ég ekki að tala um orku, fisk eða landbúnaðarvörur heldur lýðræðishefð og friðarboðskap sem Íslendingar hafa varðveitt í margar kynslóðir, ekki bara í orði heldur líka í framkvæmd.

Markmið Evrópusambandsins er að jafna og bæta kjör í aðildarríkjunum. Evrópusambandið byggir á þeirri sýn að friður á milli sjálfstæðra ríkja verði best tryggður með samskiptum og samvinnu, gagnkvæmum skilningi og jafnræði í réttindum og lífskjörum.

Íslendingar hafa staðið sig mjög vel í að móta reglur um réttindi fólks á vinnumarkaði og miðlað þannig áherslum íslensks vinnumarkaðar um velferð og réttindi inn í samevrópskar reglur. Aðild ASÍ að Evrópusambandi stéttarfélaga hefur gefið sambandinu tækifæri til að standa þá vakt með miklum sóma. Á sama hátt getum við nýtt sérþekkingu okkar og reynslu til að hafa áhrif í friðar- og lýðræðismálum innan Evrópusambandsins.

Ég tel að á síðustu árum sé hlutverk Íslands og annarra Norðurlandaþjóða í friðar-, lýðræðis- og velferðarmálum enn brýnna en áður. Á síðasta áratug hafa komið inn í sambandið fátækari þjóðir sem ekki hafa búið við lýðræði og markaðsbúskap síðustu áratugi. Með þeirri breytingu heyrast fjölbreyttari sjónarmið sem munu hafa áhrif á mótun Evrópusamvinnunnar á komandi árum.

Ég trúi því að Íslendingar vilji vera hluti af Evrópu þar sem raunverulegt lýðræði ríkir og mannréttindi í heiðri höfð. Nýleg frétt um starfskonu á hóteli í Reykjavík hefur vakið okkur öll til umhugsunar um að í Evrópu býr fjöldi fólks sem ekki er mótað af sömu reynslu, lífsgæðum og lífssýn og við Íslendingar. Jöfnuður í landinu, frelsi og mannréttindi eru gildi sem allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa reynt að varðveita með einum eða öðrum hætti frá því að við fengum sjálfstjórn, það hefur verið okkur mikil gæfa. Að tryggja sterkari rödd þessara gilda er hlutverk okkar – það gerum við ekki sem áhorfendur innan Evrópusambandsins heldur aðeins sem virkir þátttakendur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×