Viðskipti innlent

Hoen fékk hundruð milljóna

Freyr Bjarnason skrifar
Hollendingurinn Theo Hoen var forstjóri Marels í fjögur ár.
Hollendingurinn Theo Hoen var forstjóri Marels í fjögur ár. Fréttablaðið/Anton
Í ársuppgjöri fyrirtækisins Marels fyrir árið 2013 kemur fram að tvær milljónir evra, eða um 314 milljónir króna, hafi farið í breyttar stjórnunarstöður hjá fyrirtækinu.

Árni Oddur Þórðarson var seint á síðasta ári ráðinn forstjóri Marels í staðinn fyrir Hollendinginn Theo Hoen og fór stærstur hluti upphæðarinnar í starfslok hans. Hoen hafði unnið hjá félaginu í 28 ár og endurspeglar það starfslokin, að sögn Ásthildar Otharsdóttur, stjórnarformanns Marels. Hoen hafði starfað sem forstjóri frá árinu 2009.

Spurð nánar út í þessar 314 milljónir króna, segir Ásthildur starfskjarastefnu Marels vera mjög skýra. „Fyrirtækið gerir ekki sérstaka starfslokasamninga en að sjálfsögðu fylgjum við þeim lögum og reglum sem gilda í hverju landi fyrir sig,“ segir hún en Marel starfar í yfir fjörutíu löndum með um fjögur þúsund starfsmenn.

„Í sumum löndum þar sem við störfum eru réttindi starfsmanna talsvert umfangsmeiri en við þekkjum héðan. Í Hollandi er það þumalputtaregla að fólk ávinni sér einn mánuð fyrir hvert ár sem það starfar. Svo á það uppsafnað frí og annað slíkt. Varðandi æðstu stjórnendur okkar er einnig oft samkeppnisklásúla,“ segir Ásthildur og bætir við að Marel styðjist við starfskjaraupplýsingar frá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Hay Group.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×