Innlent

Hópur fjárfesta kaupir MP Banka

helstu stjórnendur MP Banka Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP Banka, fór yfir aðdraganda að eigendaskiptum í gær. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur verið ráðinn stjórnarformaður. Skúli Mogensen, sá eini sem stendur, segir búið að hreinsa áhættueignir út úr nýjum banka. Fréttablaðið/Anton
helstu stjórnendur MP Banka Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP Banka, fór yfir aðdraganda að eigendaskiptum í gær. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur verið ráðinn stjórnarformaður. Skúli Mogensen, sá eini sem stendur, segir búið að hreinsa áhættueignir út úr nýjum banka. Fréttablaðið/Anton
„MP Banki er það lítill að hann þarf ekki að fara út í meiri háttar tiltektir. Hann hefur ekki þegið styrki eða fyrirgreiðslu frá hendi ríkisins. Það finnst mér skipta miklu máli,“ segir fjárfestirinn Skúli Mogensen, aðaleigandi MP Banka.

Hann fór yfir aðkomu nýrra fjárfesta að MP Banka í höfuðstöðvum hans í gær, sama dag og kaupin voru innsigluð. Þar kom meðal annars fram að stefnt er að skráningu bankans á markað innan þriggja ára.

MP banki uppfyllti ekki skilyrði Fjármálaeftirlitsins um eigið fé um síðustu áramót og fékk hann frest til að bæta úr því. Nýir fjárfestar hafa lagt 5,5 milljarða króna til bankans og fór eiginfjárhlutfall hans við það í 24 prósent.

Í fjárfestahópnum er Skúli umsvifamestur með 17,45 prósenta hlut sem metinn er á 965 milljónir króna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næstur á eftir með 8,9 prósenta hlut. Á meðal annarra stórra fjárfesta eru systkinin Guðmundur og Berglind Jónsbörn kennd við útgerðarfélagið Sjóla í Hafnarfirði. Þá lagði Einar Sveinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis og stjórnarformaður N1, fram hundrað milljónir króna í skiptum fyrir 1,8 prósenta hlut.

Þessu til viðbótar eiga erlendir fjárfestar tæpan 23 prósenta hlut. Þeirra stærstir með hvor sinn 9,64 prósenta hlutinn eru Joe Lewis, eigandi breska knattspyrnuliðsins Tottenham, og Rowland-fjölskyldan. Hún keypti banka Kaupþings í Lúxemborg af skilanefnd bankans um mitt ár 2009. Lewis var jafnframt viðskiptavinur Kaupþings í Bretlandi. Skúli sagði að þótt fjárfestarnir erlendu hafi allir þekkt Íslendinga þá hafi þurft að freista þeirra til að fjárfesta hér.

Kaupin fóru þannig fram að fjárfestarnir keyptu dótturfélag MP Banka ásamt ákveðnum eignum, þar á meðal starfsemi í Litháen. Annað var skilið eftir í félagi fyrri eigenda MP Banka, Austurbraut. Þar á meðal eru áhættusamar eignir og rekstur í vesturhluta Rúmeníu. Nokkur mál standa óuppgerð eftir bankahrunið, þar á meðal Exeter-málið svokallaða. Verði niðurstaðan MP Banka ekki í hag falla allar skuldbindingar á herðar Austurbrautar.

„Áhættan er farin úr MP Banka. Það er lykilatriði,“ segir Skúli. jonab@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×