Innlent

Horfði upp á móður sína sofa á ganginum í tvær nætur

Helga Arnardóttir skrifar
Sonur tæplega áttræðrar konu segist miður sín yfir að hafa þurft að horfa upp á móður sína sofa í rúmi á göngum hjartadeildar í tvo daga fyrir fyrirhugaða aðgerð eftir hjartaáfall. Yfirlæknir deildarinnar segir ástandið erfitt og bara í dag hafi sex sjúklingar þurft að liggja á göngum deildarinnar vegna plássleysis.

Móðir Viktors Urbancic hefur verið hjartveik síðustu ár og er með eitt nýra sem starfar illa. Síðastliðið laugardagskvöld fékk hún vægt hjartaáfall. Faðir Viktors kom henni á spítalann og eftir smá bið var hún lögð á gjörgæsludeild. Á mánudeginum var hún svo færð yfir á lalmenna hjartadeild á mánudaginn. Þar átti hún að safna kröftum fyrir mögulega hjartaþræðingu í vikunni.

„En í fyrrinótt þá var hún rifin út af stofunni og látin fara út á gang því það var einhver annar greinilega veikari. Þá svaf hún lítið, verandi frammi á gangi. Og í gær fengum við þær upplýsingar að hún yrði líklegast aðra nótt á ganginum og þá leit út fyrir tvær svefnlausar nætur fyrir krítíska aðgerð um morguninn," segir hann.

Svörin voru að deildin væri yfirfull og ekkert herbergi laust. Móðir Viktors hefur ekki farið í aðgerð enn sem komið er og hefur átt erfitt með svefn.

„Hún var náttúrulega kvíðin og fékk eitthvað róandi og eitthvað sem átti að geta hjálpað henni að sofa. Það eru varla bestu skilyrði að eiga safna kröftum fyrir erfiða aðgerð og fá ekki svefn í tvær nætur."

Nær engin aðstaða var fyrir aðstandendur og næðið lítið sem ekkert.

„Skilrúmin ná ekki mjög hátt og hver einasti maður sem labbaði framhjá gat kíkt yfir skilrúmið þar sem hún lá upp við vegg. Þar sat fullorðinn faðir minn, 82 ára nú í sumar, á rúminu hjá henni því það var ekki hægt að koma fyrir stól eða neitt. Mér sýndust þau bæði vera buguð í þessum aðstæðum. Maður skilur þetta ekki alveg, maður verður reiður og við reyndum að tala við starfsfólk sem var allt af vilja gert og alveg frábært. Vil að það komi fram," segir hann.

Gestur Þorgeirsson yfirlæknir hjartadeildar LSH segir ástandið á deildinni hafa verið þungbært síðustu mánuði.

„Við erum núna af fullum þunga að taka þátt í því að hafa sjúklinga á göngum sem hafði ekki verið í allmörg misseri að minnsta kosti. Við þekktum þetta vel hér áður."

Deildin taki eingöngu 32 rúm og bara í dag þurftu sex sjúklingar að vera frammi á gangi þar sem 38 sjúklingar liggja inni.

„Það er náttúrulega óásættanlegt í rauninni, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk, það er erfitt að hvílast í rúmi úti á gangi þar sem er umgangur, ljós og annað. Fyrir starfsfólkið þá er þetta líka mjög erfitt og það er komin mikil þreyta í mannskapinn verður að segjast eins og er," segir Gestur.

Hann segir ástæðurnar vera að deildir spítalans séu yfirfullar af sjúklingum sem bíði eftir plássi á hjúkrunarheimilum. Niðurskurður og fækkun starfsfólks hefur einnig mikil áhrif.

„Við held ég öll vildum taka þátt að halda þjóðinni á floti eftir þetta hrun. En ég er alveg sammála því og ég held að flestir séu það að það er alveg komið á bjargbrúnina og menn kannski farnir að stíga öðrum fætinum fram yfir, held ég hreinlega."

Þess ber að geta að móður mannsins var komið inn á herbergi á hjartadeild nú síðdegis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×