Lífið

Hraðstefnumótin slá í gegn

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, til vinstri, og Rakel Ósk Orradóttir. Fyrirtækið Sambandsmiðlun skipuleggur hraðstefnumót sem hafa slegið í gegn.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir, til vinstri, og Rakel Ósk Orradóttir. Fyrirtækið Sambandsmiðlun skipuleggur hraðstefnumót sem hafa slegið í gegn. Mynd/GVA
„Þetta var í annað sinn sem við héldum hraðstefnumót og þau virðast ætla að verða mjög vinsæl," segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir, sem rekur fyrirtækið Sambandsmiðlun. Fyrirtækið þjónustar einstaklinga í makaleit og skipuleggur uppákomur á borð við hraðstefnumót, hópstefnumót og fyrirlestra.

Hraðstefnumótin eru haldin í samstarfi við skemmtistaðinn Thorvaldsen og komast fjörutíu manns að í hvert sinn. Stefnumótin fara fram á þann hátt að pörin fá fimm mínútur til þess að kynnast áður en bjöllu er hringt og hefst þá næsta stefnumót. „Fólk merkir síðan við á blað hvort það hafi áhuga á að hitta einstaklinginn aftur og skilar blöðunum svo til okkar. Ef sömu tveir einstaklingar hafa merkt við hvorn annan þá komum við þeim í samband," útskýrir Gerður Huld. Hún segir meiri hluta fara á annað stefnumót í kjölfarið.

Hraðstefnumótin eru skipulögð eftir aldri, síðast mættu einstaklingar á aldrinum 40 til 55 ára og þann 27. mars verður haldið stefnumót fyrir aldurinn 25 til 40 ára. Nánari upplýsingar um það má finna á heimasíðu Sambandsmiðlunar. Innt eftir því hvort Íslendingar séu opnir fyrir svona nýjungum segir Gerður Huld svo vera. „Fólk er feimið til að byrja með, en þegar líður á kvöldið slakar það á. Við höfum átt í erfiðleikum með að rýma húsnæðið í lok kvölds því fólk er svo upptekið við að spjalla."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.