Skoðun

Hreinsunardeild réttlætisins

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar
Í níufréttum útvarps að morgni þriðjudags var fjallað um mánudagsmótmælin á Austurvelli. Þar voru um átta þúsund manns. Boðskapurinn var einn: Við mótmælum ástandinu í samfélaginu. Ástæðurnar voru fleiri, kannski allt að átta þúsund.

Eggjum var kastað. Líka grjóti. Málningu slett. Það var mikið drasl eftir á Austurvelli og við Alþingishúsið. Rúður voru brotnar í húsinu, málning á veggjum. Hreinsunardeild Reykjavíkurborgar hóf störf strax um nóttina og var enn að störfum morguninn eftir. Deildin á skýra verkferla fyrir svona verkefni, fara í gallana og ganga hreint til verks.

Lögreglan var við störf á mótmælakvöldi. Hún hafði góð tök á stöðunni, sagði lögreglustjórinn Stefán Eiríksson. Hún stóð vörð um þinghúsið. Lögreglan nýtur mikils trausts í samfélaginu. Líklega nýtur hreinsunardeildin líka mikils trausts. Þau vita hvað þau ætla að gera, stíga örugg skref og vinna vinnuna sína. Þetta eru starfsmenn á plani.

Í síðustu viku fór atkvæðagreiðsla á Alþingi 63-0. Sextíu og þrír þingmenn greiddu því atkvæði að vinna nauðsynlegar umbætur á stjórnkerfinu í kjölfar Hrunsins. Þeirra er þörf. Í stefnuræðu sinni á mánudaginn sagði Jóhanna Sigurðardóttir frá því að bankarnir drægju lappirnar þegar kæmi að sértækum úrræðum fyrir fólk í vanda. Það gengur ekki.

Við spyrjum: Þurfum við ekki sérsveit sem stendur vörð um hagsmuni almennings í landinu, hagsmuni fólksins andspænis hagsmunum banka og auðræðiskerfis sem kallaði Hrunið yfir þjóðina? Þurfum við ekki hreinsunardeild sem tekur til í bönkum og stjórnkerfi eftir Hrunið? Sem víkur þeim frá sem hirða ekki um málefni ekkna og munaðarleysingja, sem gæta ekki réttar þeirra sem minnst mega sín?

Hvers vegna eru engir verkferlar til í landinu fyrir slík verkefni? Hvar eru starfsmennirnir sem eiga heima á því plani? Við köllum eftir sérsveit mennskunnar. Við köllum eftir hreinsunardeild réttlætisins.



Skoðun

Sjá meira


×