Innlent

Hrina smáskjálfta í Krýsuvík

Frá Krýsuvík.
Frá Krýsuvík.
Jarðskjálftahrina er nú í gangi í Krýsuvík og hafa yfir fimmtíu skjálftar mælst þar síðustu tvo sólarhringa, samkvæmt skjálftavef Veðurstofunnar. Jarðskálftarnir eru allir litlir, - þeir stærstu tæp tvö stig, og eiga flestir upptök á litlu svæði suðvestan Kleifarvatns á þriggja til fimm kílómetra dýpi.

Hrinur sem þessar hafa verið áberandi í haust og vetur og en þær hófust fyrir tveimur árum. Þeim fylgdi óvenju mikið landris, en land reis um þrjá sentímetra í Krýsuvík, og töldu jarðvísindamenn þá ástæðu til að upplýsta almannavarnir um hræringarnar.

Landrisið gekk til baka í fyrravetur og á fyrri hluta síðasta árs en hófst svo að nýju í fyrravor. Þá var ákveðið að vakta svæðið betur og í því skyni var tveimur nýjum GPS-mælum komið upp. Skjálftahrinurnar í haust komu vísindamönnum ekki á óvart og höfðu þeir áður látið almannavarnir vita að búast mætti við hræringum á svæðinu.

Vísindamenn eru ekki vissir um hvað þarna er að gerast en hallast helst að því að landrisið megi skýra með þrýstingsaukningu í jarðhitakerfinu, sem hugsanlega tengist kvikuhreyfingum.

 



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×