Innlent

Hrollur í höfuðborginni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Leiðindahelgi framundan segir Stormurinn.
Leiðindahelgi framundan segir Stormurinn.
Eflaust hafa margir höfuðborgarbúar verið með hroll í dag, og svo virðist sem hlýindi undanfarinna daga séu að baki. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur vill þó meina að mögulega séu Sunnlendingar orðnir of góðu vanir.

„Voðalega eru þetta flóknar spurningar,“ sagði Sigurður þegar Vísir spurði hann hvers vegna væri svona kalt.

„Þetta er skammvinnt kuldakast sem tekur enda á sunnudaginn, en fram að því er þetta lítið spennandi. Lægðirnar okkar hafa farið meira og minna langt fyrir sunnan land og svo norður með austurströndinni, og í kjölfarið fáum við þessi norðanskot. Það eru nú alltaf þeir fyrir norðan sem lenda verst í þessu. En það er leiðindahelgi framundan.“

En hvenær má eiga von á því að fólk geti dregið fram stuttbuxurnar?

„Ef við horfum aftur í tímann þá höfum við verið að lenda í norðanhretum í apríl og maí og ekkert óeðlilegt við að það komi svona skot og skot, þó það sé gott á milli. En samúð mín liggur hjá þeim sem búa á norðurhelmingi landsins því þeir hafa haft vetur í allan vetur, á meðan við fyrir sunnan vitum stundum ekki alveg hvaða árstíð er. En varðandi stuttbuxurnar, þá bendir margt til þess að seinni hluti mánaðarins verði mjög góður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×