Innlent

Hugbúnaðarfyrirtæki eiga erfitt með að manna stöður

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki eiga í erfiðleikum með að manna stöður þar sem mikill skortur er á tölvunarfræðingum. Þrátt fyrir þetta virðist aðsókn í nám tengd geiranum ekki vera að aukast.

Framkvæmdastjóri Meniga sagði í fréttum okkar í gær að það væri strembið að finna hæft fólk til að starfa í hugbúnaðardeild fyrirtækisins þar sem samkeppni væri mikil um starfsmenn í hugbúnaðargeiranum. Fyrirtækið Advania á einnig í þessum sömu vandræðum og sagði talsmaður þess við fréttastofu í dag að fyrirtækið gæti í raun bætt við sig tíu tölvunarfræðingum á þessari stundu. Framkvæmdastjóri Datamarket tekur í svipaðan streng og segir engan hæfan hugbúnaðarmann vera án atvinnu á landinu.

„Það sárvantar fólk í þennan geira," segir Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri Datamarket.

„Það er ekki aukning í aðsókn í tölvunarfræði og þessi kjarnafög sem koma að hugbúnaðargerð því miður því að eftirspurnin er bara að aukast," segir Hjálmar.

Hjálmar óttast að margir kunni að halda að fögin séu einungis fyrir tölvusénía en segir að ef fólk er gott í raungreinum ætti það að láta slag standa ef áhuginn er fyrir hendi.

Þessi aukna samkeppni um fólk, þetta hlýtur að hækka launin ekki satt?

„Jú það gerir það," svarar Hjálmar og bætir við:

„Þau hafa nú líklega hækkað hraðar heldur en í flestum öðrum geirum og ég hef fundið það í kringum mig að það er orðinn töluverður þrýstingur. En það er samt sem áður þannig í þessum geira að fólk er ekki bara að horfa á launin. Það er líka að horfa á hversu spennandi störfin og viðfangsefnin eru, er ég að búa til eitthvað flott eða eitthvað sem fólk kemur til með að nota. Fólk horfir eftir fleiru en bara launatölunni."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×