Skoðun

Hugrekki - Umhyggja - Umburðarlyndi - Virðing

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

Öll börn á Íslandi eiga rétt á því að lifa og þroskast, þau eiga rétt á lífsskilyrðum sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska þeirra. Þau eiga rétt á að rækta hæfileika sína og á umönnun og vernd gegn hvers kyns ofbeldi. Þessi og önnur réttindi barna voru lögfest á Íslandi með lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. febrúar 2013. Í sáttmálanum er kveðið á um að bannað sé að mismuna börnum hvað varðar þessi réttindi. Öll börn eiga að njóta þessara réttinda, óháð stöðu þeirra eða foreldra þeirra.



Þegar barn byrjar í leikskóla og seinna í grunnskóla, má segja að foreldrar afhendi börn sín í hendur skólasamfélaginu með von í brjósti um að þarna muni barninu líða vel, eignast vini og fái að rækta hæfileika sína og þroskast. Foreldrar treysta því að barnið búi við öryggi, umönnun og vernd.



Barnahópurinn sem byrjar í skóla haust hvert er fjölbreyttur, börnin eru með mismunandi eiginleika, bakgrunn og áhugamál. Mikilvægt er að skólinn líti á þennan fjölbreytileika sem kost og einsetji sér að hvert barn fái að njóta sín á sínum forsendum.



Í leikskóla sem hefur umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki að leiðarljósi og ræktar þessi gildi meðal nemendanna, eru minni líkur á að barn verði fyrir aðkasti vegna einhverrar sérstöðu sinnar. Þar er fjölbreytileikinn virtur og þar eru allir jafningjar, þrátt fyrir mismunandi aðstæður, eiginleika og bakgrunn. Þar njóta öll börn, vinsemdar og virðingar óháð eiginleikum eða stöðu og þar hafa allir það að markmiði að vera góður félagi. Þar er hjálpsemi, umhyggja og samkennd samofin öllu skólastarfi og einstaklingarnir hafa hugrekki til að setja sér mörk og segja frá ef þeir sjá að aðrir eru beittir órétti.



Barnaheill- Save the Children á Íslandi eru mannréttindasamtök sem hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu starfi sínu. Samtökin beita sér sérstaklega fyrir þeim rétti barna að eiga ofbeldislaust líf. Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi; líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og gegn vanrækslu.



Einelti og útskúfun er ein tegund ofbeldis, sem gjarnan þrífst í skólum. Mjög gott starf hefur verið unnið í mörgum skólum á undanförnum árum til að koma í veg fyrir og vinna gegn einelti. Barnaheill líta svo á að mikilvægast af öllu sé að koma í veg fyrir aðstæður þar sem einelti þrífst og það sé ekki síst gert með því að byggja upp einstaklinga og samfélag þar sem hugrekki, umhyggja, umburðarlyndi og virðing eru í hávegum höfð og ræktuð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×