Viðskipti innlent

Hundleiðinlegt að eyða tíma í þetta

Freyr Bjarnason skrifar
Hreiðar Már og Sigurður í réttarsalnunm í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hreiðar Már og Sigurður í réttarsalnunm í Héraðsdómi Reykjavíkur. fréttablaðið/daníel
Næstsíðasti dagur í Al Thani-málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Saksóknari sagði að starfsmenn Kaupþings hafi látið eins og þeir hafi unnið HM í knattspyrnu þegar tilkynnt var um kaup Al-Thani á 5,01% hlut í bankanum haustið 2008. Benti hann á að markmiðið með viðskiptunum hafi verið að auka tiltrú fjárfesta á bankanum.

Saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings. Aðspurður um þessa kröfu sagði Hreiðar Már í samtali við blaðamann: „Mér finnst þetta einfaldlega fráleitt. Það er ljóst að ég er ákærður fyrir umboðssvik. Sá sem veitti mér umboðið, sem var Kaupþing hf, hefur rétt á að rifta viðskiptunum sem við gengum til. Þeir hafa ekki áhuga á því, sem skýrist af þeirri ástæðu að Kaupþing var í betri stöðu eftir viðskiptin en ef ekki hefði verið gengið til þeirra.“

Spurður út í tilfinningu sína fyrir málalokum sagði hann óvissuna mikla. „En ég er mjög ánægður með málflutning míns verjanda. Rökin og staðreyndir málsins liggja með okkur.“

Saksóknari fór einnig fram á sex ára dóm yfir Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings. Spurður út í þessa kröfu sagði Sigurður hana lýsa þeim tryllingi sem væri í málinu. „Þessi vegferð saksóknara í þessu máli er mér hulin ráðgáta, hvernig hann getur haldið þessu áfram eins arfavitlaust og þetta er.“

Aðspurður sagði hann hafa verið erfitt að sitja í réttarsalnum síðustu tvær vikur. „Þetta er náttúrulega hundleiðinlegt að eyða tíma sínum í þessa skelfingu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×