Innlent

Húsaleiga yrði allt að 43% lægri

Stígur Helgason skrifar
Félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík yrðu að meðaltali 43 prósentum ódýrari en leiguverð á markaði nú.
Félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík yrðu að meðaltali 43 prósentum ódýrari en leiguverð á markaði nú. Fréttablaðið/vilhelm
Hægt yrði að leigja 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu á tæpar 88 þúsund krónur á mánuði ef hið opinbera byði upp á félagslegt leiguhúsnæði að danskri fyrirmynd. Þetta segir Alþýðusamband Íslands, sem kynnti í gær hugmyndir sínar um upptöku sambærilegs kerfis hér á landi.

Danska kerfið gengur þannig fyrir sig að íbúarnir reiða fram tvö prósent af kostnaði húsnæðisins í upphafi og fá þau svo endurgreidd þegar þeir flytja út. Í ímynduðu dæmi ASÍ um hina dæmigerðu 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu yrði það framlag rétt tæp hálf milljón.

Yrði dönsku fyrirmyndinni fylgt væri leigan í hinu félagslega húsnæðiskerfi 29 til 43 prósentum lægri en leiguverð á markaði í dag, samkvæmt útreikningum ASÍ. Munurinn yrði mestur í Reykjavík og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Í skýrslu ASÍ segir að mikilvægt sé að tryggja nægt framboð af félagslegu húsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og koma jafnframt í veg fyrir stéttskipt íbúamynstur.

Þá segir í skýrslunni að danska leiðin sé heppileg, þar sem hún verji leigjendur fyrir utanaðkomandi hækkunum á húsaleigu, svo sem vegna vaxtahækkana eða breytinga á fasteignaverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×