Skoðun

Hvað áttu margar kærustur?

Tinna Sigurðardóttir skrifar

Ég ræði oft við frænda minn, 10 ára gutta, um stelpurnar í lífi hans. Ég spyr hann hvaða stelpum hann er skotinn í og hvað hann eigi margar kærustur. Þetta höfum við gert síðan hann varð skotinn í fyrstu stelpunni, þá fimm ára gamall.

Ég áttaði mig á því um daginn hvað það væri rangt af mér að spyrja þessarar spurningar: „Hvað áttu margar kærustur?“ Frá því að hann var fimm ára hef ég gefið í skyn að það sé í lagi að eiga margar kærustur, að vera með fleirum en einni manneskju í einu. Að eiga margar kærustur er ekki í lagi. Þótt maður sé bara 10 ára.

Hann sagði mér frá stelpu sem er alltaf að biðja hann um að byrja með sér en hún á samt kærasta. Þetta fannst mér sniðugt og grínaðist í honum að hann væri bara svona sætur og skemmtilegur að hún vildi hafa hann líka sem kærasta. Á þeirri stundu datt mér ekki í hug að segja honum að maður á bara að eiga eina kærustu í einu.

Þegar ég settist upp í bílinn minn og keyrði heim fór ég að hugsa. Sætleiki og skemmtilegheit réttlæta ekki framhjáhald. Við getum ekki komið í veg fyrir framhjáhald í heild sinni en við getum miðlað okkar þekkingu og reynslu áfram, sérstaklega til barnanna okkar, þegar þau eru að mótast. Það getum við gert um sambönd rétt eins og um áfengis- og vímuefnaneyslu, ofbeldi, einelti, jafnrétti og réttlæti, svo dæmi séu nefnd. Kennum börnunum hvað er rétt og hvað er rangt frá upphafi. Þau eru alltaf að læra og þurfa að læra þetta eins og allt hitt í lífinu. Sambönd eru víst afskaplega mikilvæg. Brot á trausti fer illa með fólk og sprengir sambönd.

Að eiga margar kærustur er framhjáhald. Framhjáhald er ekki í lagi!




Skoðun

Sjá meira


×