Skoðun

Hvað er svona ósanngjarnt?

Elsa Lára Arnardóttir skrifar
Í fréttum gærdagsins fór formaður Samfylkingarinnar stórum orðum um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann heldur því fram að leiðréttingin, skuldaaðgerð á verðtryggðum húsnæðislánum, sé afskaplega ósanngjörn. Hvaða þættir eru það sem að honum finnast svona ósanngjarnir? 

Aðeins um leiðréttinguna

Heildarumfang leiðréttingarinnar eru 150 milljarðar króna, sem fram fer á þremur árum. Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir, það er 80 milljarða króna leiðréttingu. Leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi og skiptir láninu niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni en leiðréttingarlánið fellur niður á rúmu ári. 70 milljarðar króna fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.

91 þúsund einstaklingar frá skuldaleiðréttingu í gegnum beina niðurfellingu og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar verður 1,350,000 krónur. Meðaltal hjóna er 1,510,000 og hver einstaklingur fær 1,100,000 krónur að jafnaði.

Einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, er tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur.

Forsendubresturinn leiðréttur

80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70 færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.

Tölulegar staðreyndir

Vegna leiðréttingarinnar munu ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um 17 % eða 130 – 220 þúsund krónur á árunum 2015 – 2017. Einnig munu afborganir og vaxtagjöld heimilanna lækka um 22 % fram til ársins 2017. Jafnframt mun eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, rúmlega 90 þúsund einstaklinga styrkjast með beinum hætti. 4 þúsund aðilar munu færast úr því að eiga minna en ekki neitt yfir í að eiga jákvætt fé í fasteignum sínum. Verðtryggð húsnæðislán geta við fullnýtingu leiðréttingarinnar lækkað um eða yfir 20 %.

Er þetta afskaplega ósanngjarnt?

Í 110 % leið fyrri ríkisstjórnar var heildarniðurfærsla verðtryggðra húsnæðisskulda um 45 milljarðar. Aðgerðin nýttist aðeins 10 % heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, rúmlega 7000 heimilum. 36 milljarðar af þeirri upphæð fóru til einungis 2500 einstaklinga. Það þýðir að lán voru lækkuð að meðaltali um 14,4 milljónir á hvern þann sem fékk hlut úr þeim potti.

Meðaltekjur þessara 775 heimila á mánuði á árinu 2009 voru 750 þúsund, tugur þeirra var með meðaltekjur yfir 2 milljónir króna á mánuði. Dæmi eru um að einstaklingar sem höfðu meira en 2 milljónir í mánaðarlaun hafi fengið meira en 50 milljónir króna niðurfelldar. Það eru jafnframt til dæmi um 100 milljón króna niðurfellingar. Þetta eru upplýsingar sem koma úr gögnum fjármálaráðuneytisins.

Á meðan 10 % heimila fengu niðurfellingar sem byggðust upp á ofangreindum upplýsingum. Þá sátu margir eftir og fengu ekki leiðréttingar á sínum málum. Það voru 90 % þeirra heimila sem voru með verðtryggð húsnæðislán.

Kannski er það einmitt það sem var svona afskaplega ósanngjarnt.




Skoðun

Sjá meira


×